145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:11]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það eru greinilega einstaklingar úti í bæ sem fylgjast vel með umræðunni í dag því að ég hef fengið pósta þar sem fólk vill leggja mál til umræðunnar. Ég fékk upplýsingar um að í þættinum Ísland í bítið hefði á mánudaginn verið talað um rekstrargrundvöll og samanburð á milli smávöruverslunarinnar, þ.e. rýrnun í smávöruverslun, og svo er einstaklingur úti í bæ búinn að yfirfæra þetta á ÁTVR og tölur sem til eru um það. En það var umræða í Ísland í bítið á mánudaginn um að stolið hefði fyrir 6 milljarða í smávöruverslun. Það er tæplega 2% óútskýrð rýrnun, en óútskýrð rýrnun hjá ÁTVR er 0,03%. Það munar talsvert miklu.

Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þetta gæti verið vegna þess að ÁTVR hefur á að skipa mjög öflugu innra eftirliti í starfi sínu og hefur mikla og góða stefnu varðandi þá þætti sem snúa líka meðal annars að forvarnamálum. Mig langar að heyra hvað hann segir um það.