145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:15]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að heyra að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hafi ekki tilfinningar í þessu máli. Mér finnst þetta einmitt vera eitt af þeim málum sem rata til umræðu á Alþingi þar sem tilfinningar eiga einmitt að fá að koma í ljós. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég hef miklar tilfinningar í þessu máli. Það er ekki loku fyrir það skotið að ég leyfi þeim tilfinningum að flæða hér fram í ræðu síðar í dag ef ég kemst á mælendaskrá.

Mig langar að vita hvort andstaða hv. þingmanns, sem hér flutti ræðu, byggist á áhyggjum hans af fjárhagsafkomu ríkissjóðs eða hvort sú andstaða byggist á einhverjum lýðheilsusjónarmiðum, því að miðað við ræðu hans fer það ekki endilega saman, þ.e. tekjurnar sem ríkið hefur af áfengissölunni, sem hv. þingmaður vill hafa sem mestar, og aðgengi að áfengi.