145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá hv. þingmanni frekar en mér að kaupmönnum á horninu hefur fækkað mjög undanfarna tvo til þrjá áratugi, hugsanlega út af því að vínbúðum er yfirleitt plantað, eins og hann segir réttilega, nálægt stórmörkuðum. Það í sjálfu sér skemmir svolítið þau rök að menn þurfi að gera sér extra-ferð, eins og segir í greinargerð frumvarpsins, til að kaupa áfengi ef þeir fara út í verslun, því að venjulega er þetta mjög nálægt.

Það hefur komið hér fram að það ætti að vera freisting hverjum manni sem gengur inn í Smáralind að ganga fram hjá áfengisverslun þá labba ég nú yfirleitt hinum megin inn í verslunina fram hjá Debenhams, það er ekkert áfengi þar sem freistar nokkurs manns. Menn þurfa nú að gera sér góða ferð til þess að komast að áfengisverslun þeim megin frá.

Það hefur fækkað í hópi kaupmanna og það mun gera það enn ef þetta frumvarp verður að veruleika.