145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:25]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Frá því að þetta frumvarp var lagt fyrst fram hef ég farið í ótal margar heimsóknir til félagasamtaka, ég hef átt póstsamskipti við fólk, ég hef átt samtöl við fólk og reynt að afla mér eins mikilla upplýsinga um málið og ég get. Og þó svo að flest þessi félagasamtök séu mótfallin því að þetta frumvarp verði samþykkt og fólk komi og segi mér sínar reynslusögur sem eru oft alveg hræðilegar þá á ég aldrei eftir að geta sagt að ég skilji þá aðstöðu sem sumt fólk lifir við, að það vakni á morgnana og hugsi á hverjum einasta degi um áfengi eða næsta sopa. En ég get tekið skoðanir þessa fólks til greina og ég get reynt að tala fyrir það hérna inni. Ég get reynt að benda á þá þætti sem það hefur ítrekað sagt mér frá í þessum heimsóknum og samskiptum.

Áfengi er ekki bannað í dag. Við getum farið í áfengisverslanir og keypt okkur áfengi. Við þurfum ekki bara að fara í áfengisverslanir til þess, ég get komið í þorp þar sem er kannski engin áfengisverslun en þar er veitingastaður eða smábar þar sem hægt er að kaupa sér áfengi. Það að aðgengið verði meira en úrvalið minna er alveg rétt. Nokkrir af þeim einstaklingum sem ég hef hitt og talað við hafa einmitt sagt við mig: Ég get valið það að ganga ekki inn í stórar verslunarmiðstöðvar þar sem áfengisverslanir eru með gler sem veggi og útstillt í glugga. Ég get valið það að keyra ekki endilega um bílaplön fram hjá áfengisverslunum. En ég get ekki valið það og ég treysti ekki sjálfri mér til að ganga í gegnum matvöruverslun þar sem aðgengi að áfengi væri kannski auðveldara og það jafnvel sýnilegra. Það eru einstaklingar sem segja við mig að slíkt aðgengi sé bara það sem koma skal og fyrst við getum séð áfengi í gegnum glerið eða labbað í gegnum vissa innganga af verslunarmiðstöðvum og séð áfengi þá sé allt í lagi að stilla þessu út í matvöruverslunum, en ég tel að við þurfum kannski að hugsa aðeins um framsetninguna hjá okkur.

Það að úrval sé minna í verslunum úti á landi á kannski ekki eftir að draga úr þeirri neyslu sem við óttumst að aukist mest, þ.e. hjá ungmennum. Ég tala fyrir mína hönd og kannski fleiri ungmenna þegar ég segi að þegar ég var að byrja að smakka áfengi þá var ég ekkert endilega að spyrja um hvaða árgangur þetta væri, hvar vínið væri framleitt eða hvaða þrúga þetta væri o.s.frv. Það snerist kannski frekar um að prófa sig áfram og að langa að prófa áfengi þannig að þótt úrvalið sé minna þá dregur það ekki úr neyslu.

Ég sat í rúm tvö ár í velferðarnefnd Norðurlandaráðs á vegum Alþingis Íslendinga. Ég átti samtöl reglulega við fólk erlendis þar sem Íslandi var hrósað fyrir góðan árangur í að halda aftur af áfengisneyslu ungmenna. Fólk leit til Íslands og var oft að spyrja hvað réði helst hjá okkur. Hverju gat ég svarað? Það er þessi samfélagsleg ábyrgð á ÁTVR sem kemur bersýnilega í ljós í úrtökum og það er forvarnastarf, en ég tel að það skipti miklu máli að áfengi er selt í þessum verslunum.

Þegar ég fór að glugga aðeins meira í mögulegar afleiðingar þess að leggja niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis þá skoðaði ég rannsóknir frá Svíþjóð um það að taka upp frjálsa verslun á áfengi. Þar voru tveir möguleikar sérstaklega teknir fyrir. Það var að skipta út einkaleyfi ríkis fyrir aðrar einkareknar verslanir með áfengissöluleyfi eða leyfa áfengissölu í matvöruverslunum. Fyrri leiðin er talin skila 17% aukningu í áfengisneyslu sem mundi fjölga dauðsföllum um 770, fjölga tilfellum líkamsárása um 8.500 og fjölga veikindadögum um nokkrar milljónir á ári og ég tek fram að þetta eru tölur frá Svíþjóð. En hinn möguleikinn, að leyfa áfengissölu í matvöruverslunum, er talinn skila 37,4% aukningu í áfengisneyslu sem mundi fjölga dauðsföllum um 2 þús., auka fjölda líkamsárása um 20 þús. og fjölda veikindadaga um meira en 10 milljónir á ári. Þessar tölur fengu mig til að hugsa um þetta í samhengi við Ísland og þá kostnaðarliði sem ég tel að við þurfum að horfa til ef við setjum áfengi yfir í matvöruverslanir. Þetta snýst ekki bara um þau útgjöld sem talað er um að rekstur ÁTVR hafi í för með sér, við erum ekki bara að fá hreinan hagnað eftir það, heldur þurfum við líka að leggja pening til heilbrigðisþjónustunnar, félagslegrar umönnunar, við þurfum að taka afleiðingum afbrota, ölvunaraksturs og vinnutaps.

Ég tel að við eigum að horfa til þeirra þátta sem rannsóknir sýna að helst geta dregið úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu og það eru í fyrsta lagi aldurstakmarkanir við áfengiskaup. Við förum eftir því og ég vil líka nefna að þótt það sé ekki í lögum í dag að starfsmaður ÁTVR þurfi að vera tvítugur eða eldri þá hefur ÁTVR myndað sér þá stefnu sjálft að starfsmenn hjá ÁTVR séu ekki yngri en tvítugir og það starfar enginn hjá ÁTVR sem er yngri en tvítugur. Það má líka nefna aðra þætti sem geta dregið úr skaðlegum áhrifum og það er ríkiseinkasala áfengis, takmarkanir á sölutímum og söludögum, takmarkaður fjöldi sölustaða, áfengisskattar, lög um leyfilegt magn áfengis í blóði ökumanna, sem við vorum að ræða hérna fyrir nokkrum dögum. Í þeirri umræðu kom einmitt fram að það var fyrst árið 2014 sem enginn lést í umferðaróhappi af völdum ölvunaraksturs á Íslandi, 2014. Síðan þurfum við að hafa eftirlit með ölvunarakstri, ökuleyfissviptingu sem viðurlög við ölvunarakstri, ökuleyfi með skertum réttindum handa nýjum ökumönnum og úrræði handa fólki sem drekkur mikið, þ.e. áhættuhópnum. Við megum alls ekki gleyma því í þessari umræðu að horfa líka til áhættuhópsins sem er fólkið sem brýtur kannski af sér vegna þess sjúkdóms sem fíkn í áfengi er.

Þegar ég fór að lesa bókina Áfengi — engin venjuleg neysluvara til að glöggva mig á því hvað fólk væri að tala um þegar það sagði að áfengi væri ekki eins og mjólk og brauð, ég vildi fá meiri þunga í þann punkt, ég vildi fá meiri rök fyrir því, þá brá mér svolítið. Fyrir augum mér blasti þetta stóra rit þar sem komu fram alls konar tengingar á milli margra þátta, þ.e. drykkjuvenjur, vímu-, fíknar- og eitrunaráhrifa, langvinnandi sjúkdóma, óhappa, aðkallandi félagslegra vandamála og langvinnari félagslegra vandamála. Öll þessi atriði tengjast á einhvern hátt. Þetta opnaði augun fyrir því að maður var kannski ekki búinn að hugsa það hvað einn lítill þáttur í áfengisneyslu getur haft stór áhrif á annan.

Það var rætt svolítið um það áðan að sums staðar á landsbyggðinni væri verslun ÁTVR í raun inni í matvöruverslunum nú þegar. En ég veit til þess og get talið upp dæmi þar sem úrbætur hafa átt sér stað. Núna síðast kom ég inn í nýja verslun ÁTVR á Hólmavík þar sem búið er að loka aðganginum beint innan úr kjörbúðinni og fólk þarf núna að fara í gegnum sérinngang til að fara inn í áfengisverslunina. Það er athyglisvert fyrir okkur sem þekkjum kannski ekki áfengisvandann af eigin raun að fólk segir mér að það geti skipt mjög miklu fyrir það að ekki sé opið inn í verslunina, að áfengið sé ekki í leiðinni.

Sem ung manneskja þá hef ég fengið mörg rök með og móti málinu frá ungu fólki sem hefur annaðhvort verið að velta því fyrir sér af hverju ég sé svona á móti þessu eða hvort ég gæti með einhverri breytingu verið með þessu. Ég hef alltaf lagt áherslu á það að mér finnst kerfið ekki í lagi eins og það er í dag. Mér finnst að við þurfum að leggja miklu meiri vigt í úrbótamál og þá ekki eingöngu forvarnir heldur líka styrki við þá sem þurfa að taka á vandamálinu síðar. Ég veit ekki með aðra hv. þingmenn hérna inni en þegar ég hóf störf á Alþingi lá fyrir plagg sem var unnið og undirritað 2013, um stefnu í áfengis- og vímuefnamálum til ársins 2020. Að þeirri stefnu unnu í hóp meðal annars fulltrúar frá embætti landlæknis, innanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og frá velferðarráðuneytinu. Ég veit ekki betur en að í ár sé árið 2015 og fimm ár eftir áður en við ætlum að víkja nokkuð út af þessari stefnu í áfengis- og vímuefnamálum. Í stefnunni kemur meðal annars fram að við ætlum að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum og þetta, að takmarka aðgengi, sé með mikilvægustu aðgerðunum. Það sé gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis, virku eftirliti með notkun lyfseðilsskyldra lyfja, öflugri löggæslu og virku tolleftirliti. Ég vil koma inn á þennan punkt um aðhaldsaðgerðir varðandi sölufyrirkomulag áfengis, erum við enn þá að framfylgja þeirri stefnu? Ætlar Alþingi að starfa áfram eftir henni? Eða eigum við að prenta upp á nýtt þessa stefnu og alþjóðlegar stefnur sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja eins og með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Norðurlandaráði? Mér finnst unnið svolítið á móti starfi okkar í Norðurlandaráði þar sem við sendum fulltrúa út til að tala um hvað Ísland stendur sig vel og að við séum að framfylgja þessum og hinum atriðum í stefnu þjóðanna, ef við þurfum síðan að koma út á fund og útskýra það fyrir samstarfsfólki okkar erlendis að við séum í rauninni að opna á það sem getur, samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem við í Norðurlandaráði höfum unnið eftir, skaðað þennan árangur.

Í stefnunni um áfengis- og vímuefnamál er talað um að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis, koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa. Þá vil ég líka koma inn á þann punkt sem hefur oft verið ræddur hérna í tengslum við málið að einstaklingar sem eru ekki orðnir tvítugir mega samt afgreiða áfengi en ekki drekka það og hvernig hægt sé að fullvissa okkur um það að börn láti ekki undan hópþrýstingi. Ég nefni sem dæmi þegar strákurinn sem þú ert búin að vera svo skotin í kemur og biður þig um afgreiða sig um áfengi eða þegar vinkona manns kemur að kassanum. Þarna getur myndast bil og það er spurning hvort lögin eigi ekki eftir að víkja fyrir þeirri spennu sem þarna getur myndast.

Verslunarstjórar úti á landi hafa líka sagt við mig: Hvar á ég að fá starfsfólk sem er 18 ára og eldra? Hvar fæ ég sumarafleysingafólk sem er 18 ára og eldra? Það yrði eitt stærsta vandamálið hjá sjoppum í minni byggðakjörnum úti á landi að fá einstaklinga sem væru nógu gamlir til að geta afgreitt áfengi. Svo ég taki nú aftur Hólmavík sem dæmi þá vinnur fullorðin manneskja fyrir ÁTVR í áfengisversluninni og svo þegar kemur að sumartíma þá eru það mest börn og unglingar sem vinna í versluninni sjálfri. Hvernig ætlum við að sameina þetta og halda sömu gæðum í þjónustu, sama vöruúrvali og hvernig ætlum við að halda okkur innan lagarammans? Þetta eru ýmsar vangaveltur og ég hef sent fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um áfengis- og tóbaksneyslu þar sem ég spyr hvort ráðherrann hafi stuðlað að því eða haft áætlun um að efla rannsóknir á áfengisneyslu, t.d. hjá börnum og ungmennum sem alast upp hjá einum eða fleiri umönnunaraðilum sem eiga við alvarlega áfengismisnotkun að stríða og annað sem við höfum talið okkur vera búin að skuldbinda okkur til að gera. Ég vænti þess að fá svör um hversu langt hann er kominn og fá bara hreinskilnislegt svar við þessari spurningu: Erum við enn þá að framfylgja þessari stefnu?