145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þurfti að bregða mér aðeins frá umræðunni, ég hef ekki heyrt mikið af ræðum milli þess ég var hérna og þeirra sem hv. þingmaður var að tala um. En hv. þingmaður er sá fyrsti, eftir því sem ég best veit, sem fór að nefna alkóhólisma, fíkn í áfengi, sem mér finnst mjög þess virði að tala um hér.

Nú þekki ég fíkn ansi vel af eigin raun, að vísu í tóbak aðallega, hætti að reykja fyrir tveimur eða næstum því þremur árum, en tóbak er með mest vanabindandi efnum sem til eru. Ég get sagt það við hv. þingmann að lausnin við að eiga við fíkn, sem er mjög erfitt ferli, sér í lagi í tóbak, felst ekki í því að tóbak sjáist ekki, þvert á móti þurfti ég að venja mig á að umgangast fólk sem reykti án þess að reykja. Það er hluti af því að ráða við fíknina. Það er alla vega mín reynsla og margra annarra sem þekkja málið. Ég held ekki — nú renn ég út á tíma — en mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji þessa stóraukningu á fjölda verslana jákvæða.