145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:44]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er kannski ekki vendipunkturinn, en ég tel líka að samfélagsleg ábyrgð ÁTVR spili svolítið stóran þátt í þessu, þeir framfylgja lögum, þeir fylgjast með skilríkjanotkun, við höfum séð kærur vegna auglýsinga á áfengi.

Þegar hv. þingmaður talar um að snúa til baka þá ræddi ég einmitt áðan um baráttu þeirra landa sem standa í því að reyna að snúa við þeirri þróun sem við erum að reyna að fara í núna með þessu frumvarpi. Þá er það bara spurningin hvort það sé umræða sem við ættum frekar að taka upp, hvernig við gætum hert á þessu, minnkað sýnileika eða annað, eða hvort við viljum halda áfram í þessari umræðu og halda áfram á þessari braut.