145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:48]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir innleggið. Það er rétt hjá honum að við höfum sýnt góðan árangur í sambandi við unga fólkið okkar. Samkvæmt rannsókn, sem er reyndar frá 2007, hafa íslenskir unglingar sérstöðu hvað neyslu ávana- og vímuefna varðar. Umtalsvert fleiri unglingar á Íslandi hafa engin slík efni notað um ævina en í nokkru öðru landi í Evrópu. Miðað við vaxandi súlur og vaxandi línurit um fjölda þeirra sem hafa ekki gert það þá trúi ég ekki að á síðustu árum hafi neyslan hríðfallið.

Svo talar fólk um að við þurfum bara að samlaga neyslumynstur Íslendinga að lögunum um leið og þetta frumvarp gengur hér í gegn. Ég er ekki alveg að kaupa þessa tengingu því að ég held einmitt að nú þegar fari Íslendingar ekki eftir þeim lögum sem við setjum. Þó að við stöndum okkur vel með ungmennin þá megum við ekki gleyma því sem talað var um hérna áðan, að neysla mundi aukast einna mest hjá miðaldra konum.