145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:51]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er sammála því að við þurfum frekar að huga að úrbótum á þeim vandamálum sem við horfum upp á núna. Ég hugsaði einmitt þegar við fórum að tengja sérstöku umræðuna um ölvunarakstur, sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir átti upphafið að um daginn, við það sem hv. þingmaður Páll Valur Björnsson kom með áðan um að menn fari á bari, fái sér í glas og keyri síðan heim: Er þetta ekki líka spurning um uppfræðslu, hvað við ætlum að gera til þess að uppfræða unga ökumenn, því að það læra börnin sem fyrir þeim er haft? Hvaða menningu eru börnin að læra? Erum við að fara að kenna börnum að það sé í lagi að drekka og keyra, að það sé í lagi að fara út í búð og kaupa sér bjór og drekka hann á ferðalögum, eða hvað? Við erum nú þegar að kljást við þetta, eins og um verslunarmannahelgi þegar bensínstöðvar ætluðu að fara að selja bjór þannig að fólk gæti stoppað á leiðinni á þjóðhátíð í Eyjum og fengið sér bjórglas áður en það legði af stað í ferðalagið.