145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:56]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar. Það er einmitt svolítið undarlegur punktur að ríkið eigi ekki að skipta sér af þessum málaflokki, þetta sé málefni einstaklingsins, en ríkið má hins vegar hirða vandamálin. Þetta eru þau vandamál sem ég hef margoft talið upp í dag í sambandi við heilbrigðisþjónustu, félagslega umönnun, ölvunarakstur, vinnutap, afbrot, sársauka, þjáningu, dauðsföll. Þetta má ríkið sjá um en það má ekki skipta sér af öðru. Svo er það líka að samantekt úr níu rannsóknum um einkavæðingu gaf til kynna 2,2% minnkun á sölu áfengis á stöðum með ríkisreknar áfengisverslanir.

Ég punktaði niður áðan 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar kemur fram að hagsmunir barnsins eigi að vera í fyrirrúmi. Íslenska ríkinu er í rauninni skylt að gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. á sviði löggjafar, til að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og vímuefna. Og rannsóknir sýna að við gerum það ekki með því að fara sömu leið og aðrar þjóðir sem eru síðan kljást við heimilisofbeldi, (Forseti hringir.) brottfall barna úr skóla o.s.frv.