145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég hef ekki rekist á neitt sem fær mig til þess að halda að samfélagið muni jafna sig á skömmum tíma á þessari breytingu, heldur einmitt þvert á móti, allar rannsóknir sem vísað er til benda til þess að vandinn muni aukast með frumvarpinu, verði það að lögum. Flestir þeir hv. þingmenn sem tekið hafa til máls í dag eru á þeirri skoðun kostnaður ríkisins aukist vegna þess að félagsleg og heilsufarsleg vandamál muni aukast og allt bendir til þess að neyslan muni aukast. En vitum það auðvitað líka að ríkissjóður fær tekjur í gegnum áfengissöluna. Mér finnst því eðlilegt að ríkið hafi þær tekjur og geti notað þær í forvarnastarf, í heilbrigðismálin og það þarf auðvitað að leggja miklu meira til en sem nemur ágóða af áfengissölunni.

En ég held að hv. flutningsmenn þessa frumvarps hafi aðra sýn á málið en ég, því að á bls. 9 segir, með leyfi forseta:

„Einnig má spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort eðlilegra sé að ríkið hirði þessar tekjur af kaupendum áfengis, sem eru skattgreiðendur, en einkaaðilar. Sú spurning verður sérstaklega áleitin í ljósi þess að einkarekstur er jafnan hagkvæmari en opinber rekstur.“

Ég verð að segja að ég tel að það sé bara mjög eðlilegt að ríkið hirði þessar tekjur vegna þess (Forseti hringir.) að það þarf svo sannarlega að nota þær til þess svo að takast á við þau vandamál sem áfengi (Forseti hringir.) leiðir af sér.