145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða betur við hv. þingmann um úrvalið á landsbyggðinni. Nú er ég maður sem yfirleitt, ef ekki hreinlega alltaf, hef hagsmuni landsbyggðarinnar í fyrirrúmi, hvort sem um er að ræða internettengingar, samgöngur, eða jafnvel flugvöllinn í Reykjavík sem er hluti af samgöngum.

En í umræðu um áfengismál, þar sem við erum að tala um lýðheilsu og tekjur ríkissjóðs og álíka, þá koma alltaf upp þessi rök um úrvalið á landsbyggðinni. Ég fæ mig ekki til þess að líta á það sem mikilvægt, og hvað þá að það sé hlutverk ríkisins, að tryggja úrval af dópi — áfengi er dóp sko, sem betur fer löglegt. Ef maður býr úti á landsbyggðinni þá er minna úrval af ýmsu, þar á meðal nauðsynjavöru. Væri ekki nær að tryggja úrval af annarri afþreyingu, tónleikum, leiksýningum og bókum? Ég væri frekar til að tryggja jafnræði í því.

Ég skil ekki áhersluna á það að hafa jafnræði í úrvali af áfengi. Við erum ekki einu sinni að tala um aðgengi að áfengi og jafnvel þó svo væri — að við vildum tryggja að allir fái hreint áfengi í staðinn fyrir heimabrugg, það væri kannski málefnaleg ástæða — þá finnst mér það bara ekki mikilvægt að hafa úrval; að þú getir valið um 150 tegundir.

Ég skil ekki hvernig nokkrum manni getur þótt það mikilvægt með hliðsjón af því að þegar fólk velur sér dvalarstað þá er úrval einn af fjölmörgum þáttum sem spilar þar inn í. Auðvitað er það gildismat hvers og eins hvað fólk kann að meta við þann dvalarstað sem það velur sér.

Þar fyrir utan er í litlum bæjarfélögum væntanlega ekkert mál að biðja kaupmanninn um að að kaupa tiltekna vöru, ákveðinn bjór eða ákveðið vín, eitthvað sérstaklega eftirsóknarvert. Menn gera það ef þeir þurfa sérstaka vélsög eða eitthvað annað þann daginn, þannig virkar þetta oft úti á landi sem betur fer.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Trúir hann því raunverulega að þetta skipti máli?