145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að óska mér þess að ég hefði tíma í annað andsvar við hv. þingmann.

Nú ræðum við þetta áfengismál aftur. Við ræddum í meginatriðum sama mál á seinasta þingi og í upphafi var ég sjálfur mjög tvístígandi í afstöðu minni, aðallega út af útfærsluatriðum. Ég var ekki sannfærður um að skynsamlegt væri að leggja niður ÁTVR eða áfengishlutann af ÁTVR eða að setja sterkt áfengi í búðir líka. Ég er enn þá ekki fullkomlega sannfærður um að skynsamlegt sé að leggja niður áfengishlutann af ÁTVR, ég hef hins vegar komist á þá skoðun að það skipti ekki öllu máli og eftir umfjöllun um málið á seinasta þingi tel ég að það skipti sömuleiðis ekki öllu máli hvort bjór, léttvín eða sterkt áfengi fari inn í búðir, ekki til lengri tíma. Ég held að ef við færum að setja bjór og léttvín í búðir þá mundi sterka áfengið fylgja. Ég tel það óhjákvæmilegt.

Sömuleiðis hef ég komist á þá skoðun að þótt þetta frumvarp sé ekki fullkomið þá mundi ég greiða atkvæði með því ef það fengi fulla umfjöllun hérna, sem er auðvitað ekkert víst, við vitum öll hvernig það allt saman virkar. Sömuleiðis tel ég að það sé mögulegt að gera ýmsar breytingar á því og flestar í þá átt að auka frelsi þar sem mér finnst það skipta mestu máli. Hér er mikið tala um frelsi, ég fer meira út í það á eftir.

Ég hef tekið eftir einu sem er að fólk hefur sterk tilhneigingu til að gera lítið úr þessu máli og spyrja: Hvers vegna er það á dagskrá núna? Af hverju skiptir þetta einhverju máli? Eigum við ekki frekar að vera að ræða eitthvað mikilvægt? Ég vil meina að það endurspegli ákveðna feimni við málaflokkinn. Þetta er sambærilegt við þá feimni sem brýst út þegar við tölum um hluti sem þykja ekki fínir í okkar samfélagi. Gott dæmi er áfengi, vímuefni, klám o.s.frv., hlutir sem fólki finnst óþægilegt að tala um en við verðum að tala um, við þurfum að hafa þroskann til þess að tala um þessi mál eins og þau raunverulega eru í menningu okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Vel á minnst, við stjórnum ekki menningunni. Það eru ekki alþingismenn sem eiga að ákveða hvað það er sem hverjum og einum líkar vel eða illa við. Það er ekki okkar að meta hvort tíma einstaklingsins í samfélaginu sé betur borgið klukkan níu á föstudagskvöldi með bjór í hönd með góðum vinum eða bókasafni að lesa Hamlet.

Ég held því fram að þetta mál skipti verulega miklu vegna þess að áfengi er hluti af menningu okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta mál varðar hins vegar ekki bara frelsið, það varðar líka heilsu, lýðheilsu nánar tiltekið eins og hún er kölluð. Heilsa skiptir máli. Frelsi skiptir máli. Þetta mál er spurning um heilsu og það er spurning um frelsi. Þá er ég ekki að tala um viðskiptafrelsi. Ég hef engan áhuga á því að samþykkja þetta frumvarp vegna einhverra fjárhagslegra hagsmuna seljenda. Mér er alveg sama um þá. Það er sama nálgun og ég hef þegar kemur að ólöglegum vímuefnum. Ég hugsa um neytandann. Ég er ekkert að skipta mér af sölunni og framleiðslunni og því. Mér finnst það aukaatriði við hliðina á því hvernig fyrirkomulagið er gagnvart neytandanum. Hann er í lykilhlutverki í þessari sögu að mínu mati. Hitt skiptir ekki máli nema upp að því marki sem það hefur áhrif á neytandann. Ég er ekki að velta fyrir mér sölu seljandans og ekki framleiðandans nema sem einstaklings, ég kem inn á það á eftir.

Mér finnst tekjurnar af áfengissölu ekki skipta máli, jafnvel þó að þær séu þessir 1,5 milljarðar eins og sagt er, sem er umdeilt og ég get ekki ályktað um vegna þess að ég hef ekki gögnin og þeim sem hafa reynt að fá þau hefur ekki tekist það, að mér vitandi, þannig að ég hreinlega þekki það ekki. ÁTVR er líka tóbakssala og græðir á tá og fingri af tóbaki, en jafnvel þótt við segjum sem svo að það séu 1,5 milljarðar í tekjur bara af áfengissölu þá verðum við að spyrja okkur: Ætlum við í alvörunni að fjármagna ríkissjóð með dópsölu? Ætlum við í alvörunni að gera það? Er það siðlegt? Er það það sem ríkið á að gera? Ég held ekki. Mér finnst alveg þess virði að ræða það. Mér finnst það áhugaverð spurning. Kannski er það rangt hjá mér. Kannski er það rétt. Mér finnst allt í lagi að staldra við og velta þeirri siðferðilegu spurningu fyrir sér. Ég þekki menn sem hafa ákveðið að hætta að selja áfengi vegna þess að þeir voru einfaldlega á móti því. Þeir brenndu ekki staðinn eða bönnuðu áfengi, þeir hættu bara að taka þátt í því. Þetta er siðferðileg spurning sem hver og einn verður að svara. Mér finnst mjög óþægilegt að ríkið sé dópsali og ég endurtek að mér er sama um réttindi seljandans nema auðvitað bara mannréttindi.

Þannig að ég er ekki alveg sannfærður um að spurningin um tekjur sé yfir höfuð málefnaleg ástæða til þess að draga ályktanir í þessu máli, á hvorn veginn sem er. Mér finnst það ekki skipta máli þegar kemur að þessari spurningu.

Mér þykir alveg þess virði — nú gleymir maður alltaf hvað maður hefur lítinn tíma hérna — að tala aðeins um fíkn. Það hvort menn vilja kalla fíkn sjúkdóm eða ekki þykir mér aukaatriði. Fíkn er ákveðið hegðunarlegt fyrirbæri, þ.e. sambland af líkamlegum og andlegum þáttum og vissulega félagslegum og samfélagslegum að einhverju leyti, jafnvel verulegu. Nú er ég fyrrverandi reykingamaður. Ég reykti heilu ósköpin af tóbaki, pakka á dag að minnsta kosti og meira ef ég var í glasi eða eitthvað því um líkt og það var rosalega stór þáttur af minni sjálfsmynd að vera reykingamaður enda mikill fíkill í tóbak. Ég hætti fyrir örfáum árum. Það var mjög erfitt og ég þurfti nokkrar tilraunir og ég þurfti alls konar aðferðafræði, ég þurfti ákveðnar aðstæður í mínu lífi, en ég þurfti líka að geta umgengist tóbak. Það að tóbak sé í umhverfi mínu eða ekki getur ekki verið þáttur í því að ég forðist tóbak. Ef ég ætla að hætta að reykja sem ég og gerði og tókst það blessunarlega þá verð ég að þola það að tóbak sé selt í búðum, enda er ég á móti því að tóbak sé eingöngu selt í apótekum. Ég verð að þola reykingarlykt af vinum mínum. Ég verð að geta farið út í reykingapásu með vinum mínum án þess að fá mér smók. Það er ekki valkvætt. Ég verð að gera það. Þetta er hluti af því að hætta. Og ég veit að það er erfitt vegna þess að ég hef verið í þessari stöðu. En þetta er hluti af því að takast á við þetta undarlega og mjög misskilda fyrirbæri sem heitir fíkn. Þegar kemur að fíkn minni í tóbak þá geri ég engar kröfur á samfélagið um að það feli tóbak fyrir mér, ég geri engar kröfur um að það sé selt í ákveðnum búðum eða apótekum eða eitthvað því um líkt.

Ef ég dreg einhvern lærdóm af því að hafa verið reykingamaður þá langar mig líka að segja eitt fyrir hönd þess reykingamanns sem ég var: Áður en ég hætti að reykja, áður en ég hætti að vilja að reykja, þá vissi ríkið ekkert betur en ég hvað ég vildi. Ég reykti í mörg ár vegna þess að mig langaði ekki til að hætta. Ég naut þess að reykja. Og mér var og er sama hvað ríkinu og öllum öðrum finnst um það. Það er ekki mat ríkisins sem ræður því hvað ég vil gera við mitt líf. Og athugið að reykingar eru meira að segja slæmt dæmi vegna þess að þetta er í raun og veru bara þrældómur sem var jú það sem fékk mig til að hætta. Ég var þreyttur á því að vera þræll. Ég var þreyttur á fíkninni. En í þá daga var mér sama um heilsuna. Mér var sama um peningana. Verðmætamat mitt í lífinu á þessum tíma var einfaldlega ekki þannig að ég vildi það sem hv. þingmenn hér telja og töldu mér fyrir bestu.

Nú kemur að áfengi sem vissulega hefur einhverja tilhneigingu til þess að valda fíkn. Sumt fólk er fíkið í áfengi og það leiðir af sér hræðileg vandamál alveg eins og reykingar. En áfengi er líka hluti af menningu okkar. Það er líka jákvæður hluti af menningu okkar. Við þurfum að horfast í augu við það. Ef við horfumst í augu við það þá erum við þar með ekki að réttlæta allt það slæma sem áfengið gerir, en við verðum að gera okkur grein fyrir því vegna hlutverks okkar, ekki sem vinalegrar móður eða föður samfélagsins heldur sem réttindavernd samfélagsins, að við ákveðum ekki hvert gildismat einstaklinga er. Ef einstaklingur vill fá sér einn eða tvo bjóra klukkan níu á föstudagskvöldi með góðum vinum, við góða tónlist og uppbyggilegar og skemmtilegar samræður, sem fara yfirleitt í kringum tvöleytið að snúast um að bjarga heiminum eins og við öll þekkjum, þá getum við ekki ákveðið hvort hann eigi að gera það eða ekki. Við höfum engar forsendur til þess að meta hvort það sé góð hugmynd eða ekki fyrir hvern einstakling. En af einhverjum ástæðum um leið og við setjum hóp af fólki í tölfræðimynstur þá er allt í einu allt farið að koma okkur við.

Ef ég segi við einhvern að það komi honum ekkert við hvort ég ætli að fá mér bjór í kvöld þá samþykkir hann það bara. Það er rétt, það er þitt mat, þú mátt drekka bjór ef þú vilt, kemur mér ekkert við. Ef ég birtist hins vegar sem eitthvert korn í tölfræði þá kemur það honum allt í einu við. Mér finnst þetta svolítið skrýtið. Mér finnst allt í lagi að nefna þetta.

Nú ætla ég ekkert að hafna hugtakinu lýðheilsa, en ég hafna því að það sé einhver tromprök fyrir því hvernig við ætlum að stjórna þessu samfélagi. Ég hafna því að lýðheilsa sé tromprök. Ég hafna því. Þau rök skipta máli, en það er fleira sem skiptir máli, m.a. það að við áttum okkur á því að við stjórnum ekki gildismati almennings, hvort sem það snertir áfengi eða hvað annað. Með því er heldur ekki sagt að allt eigi einfaldlega að vera leyft eða allt eigi að vera frjálst, heldur vil ég bara benda á að við eigum ekki að týna okkur alveg í lýðheilsurökunum, jafnvel þeim hluta sem þó er alveg sannur. Ég er reyndar sannfærður um ef út í það er farið að ef þetta frumvarp yrði að lögum þá mundi það sennilega auka heildarneyslu, ég tel það. Ég hef alla vega ekki áreiðanleg gögn að mínu mati sem sýna hið andstæða. Enn fremur tel ég meira að segja að ef ekkert yrði gert samhliða þá mundi það líklega auka unglinganeyslu og það er nokkuð sem ég tek mun alvarlegar en aukningu á neyslu fullorðins fólks. Fullorðið fólk hefur jú það frelsi og þau réttindi sem ég var að nefna hérna áðan að geta stjórnað eigin lífi með hætti sem okkur hér á hinu háa Alþingi þykir kannski ægilega óskynsamlegur, en þetta er fullorðið fólk. Þegar kemur að unglingum og ungmennum þá lít ég ekki þannig á það. Þar þykja mér lýðheilsusjónarmiðin miklu sterkari. Þar þykja mér þau vera tromp vegna þess að þá er um að ræða ósjálfstæða einstaklinga.

Í því skyni þykir mér mikilvægt að þegar við krukkum í áfengisfyrirkomulaginu þá gerum við það með einhver ákveðin markmið í huga. Mér þykir frelsisaukning, aukið frelsi einstaklings vera lögmætt markmið, en það þarf ekki að vera það eina, við getum líka meðfram því haft áætlanir og þau markmið að ætla að halda áfram að draga úr neyslu ungmenna á áfengi og öðrum vímuefnum, löglegum eða ólöglegum. Vegna þess að við vitum að það er hægt. Það, virðulegi forseti, er staðreynd. Við vitum að það er hægt vegna þess að við erum búin að vera að gera það í 15 ár eða meira. Við vitum líka mikið um hvernig er hægt að gera að. Við erum ekki með neina eina lausn sem hentar alltaf. Við vitum það líka að engin lausn er skotheld. Engin lausn virkar fyrir alla. En við getum gert það.

Þá finnst mér að við þurfum að líta á þennan málstað, þetta frumvarp og þennan málaflokk, aðeins meira heildstætt. Það er það sem ég mundi vilja sjá gerast í meðferð frumvarpsins, sér í lagi hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að komið verði til móts við ýmisleg svona sjónarmið í meira mæli en gert er nú þegar. Vissulega er hlutfallið sem fer til lýðheilsusjóðs hækkað úr 1% í 5%. Persónulega skil ég ekki hvers vegna það fer ekki upp í 100%. Persónulega skil ég ekki, ef ríkið ætlar að græða á dópsölu, hvers vegna allt fari ekki í það að fyrirbyggja vandamálin sem fylgja vissulega áfengisneyslu.

Nú hef ég allt of lítinn tíma eins og mig reyndar grunaði þegar ég byrjaði. En mig langar að nefna aðeins ÁTVR sem stofnun. Margir hérna tala um að ÁTVR beri ákveðna samfélagslega ábyrgð. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að láta einkaaðila bera sömu ábyrgð. Ég sé bara ekki hvað er því til fyrirstöðu með nægu eftirliti. En það er eitt af því sem við þurfum að tryggja að sé gert. Við þurfum að tryggja að fjármagn sé til þess. Við þurfum að tryggja að aðferðafræðin virki. Við þurfum að tryggja að hún virki líka á stöðum þar sem félagslegur þrýstingur er mjög ríkur eins og hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir fór yfir áðan, þegar 18 ára einstaklingur fær annan 18 ára einstakling í búðina til sín sem vill fá að kaupa áfengi og það getur orðið ákveðinn félagslegur þrýstingur. Við þurfum að gera ráð fyrir því, við megum ekki hunsa þessi vandamál. En við getum alveg komið til móts við þau. Ég vona að það verði gert hér.

En þegar ég heyri talað um samfélagslega ábyrgð ÁTVR þá hvái ég. Nú hef ég ekki nægan tíma til að rökstyðja það til enda, en ÁTVR sýnir áfengi í jákvæðu ljósi. ÁTVR auglýsir áfengi. Það normalíserar áfengi. Það auglýsir beinlínis eða leiðbeinir fólki um að það sé gott að drekka þetta vín með mat og annað ekki væntanlega. Í því felst hlutverk sem ég skil ekki hvernig á heima hjá ríkisstofnun. Ég skil það bara ekki. Ef markmiðið er að draga úr aðgengi þá sé ég ekki hvernig ÁTVR sinnir því hlutverki. Ef markmiðið er að passa að áfengi sé ekki sýnilegt, að ekki sé talað vel um það, að það sé ekki auglýst, þá sé ég ekki hvernig ÁTVR sinnir því hlutverki, alla vega ekki umfram það hlutverk sem við getum alveg eins sett á herðar einkaaðila, þ.e. ef við stöndum vel að þessu.

Áhyggjurnar sem ég hef snúa að áfengisneyslu unglinga. Það er eitthvað sem ég vil leggja sérstaka áherslu á vegna þess að það sýnir sig með öll vímuefni að því eldri sem manneskja er þegar hún byrjar að nota vímuefni, því ólíklegra er að það valdi vandræðum og minni vandræðum eftir á. Mér þykir að höfuðáherslan hér eigi að vera lögð á það. Sömuleiðis hef ég áhyggjur af því að eftirlitið yrði ekki nógu gott með þessum breytingum og geri ráð fyrir því að þingið taki það vandamál alvarlega.

Nú hef ég ekki meiri tíma en kem til með að lýsa frekari sjónarmiðum í annarri ræðu, virðulegi forseti.