145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú búum við við fyrirkomulag sem almennt leggur bann við eign, kaupum og meðhöndlun á ólöglegum vímuefnum svokölluðum. Til lengri tíma litið mundi ég vilja að slíkt yrði heimilt, já, algjörlega. Ég er hlynntur því að það verði langtímamarkmiðið. Hins vegar er það langtímamarkmið og taka verður þau skref í litlum bitum og þar aftur, eins og er í samræmi við okkar vímuefnastefnu hjá Pírötum, er það einmitt að setja neytandann í fyrsta sætið. Það hvort selja eigi kannabisefni í búðum er spurning sem hvergi nálægt því er tímabær. Núna refsum við kannabisneytendum. Núna tökum við þá og setjum þá á sakaskrá, sektum þá, hótum þeim fangelsisvist. Sem betur fer stöndum við ekki við það. En mér þykir fráleitt hvernig komið er fram við fólk í þeim málaflokki og mundi miklu frekar vilja sjá áherslu á frelsisvæðingu þar fyrir neytandann. Já, vissulega.

Þetta mál er hins vegar ólíkt hinu í eðli sínu vegna þess að hér er ekki um að ræða vöru sem fólki er refsað fyrir að nota. Því finnst mér þetta vera ólík mál. En svarið er í meginatriðum já.