145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:01]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig grunaði nú að þetta yrði svar þingmannsins. Við erum sammála um að menningin hafi breyst til hins betra en ég tel að ÁTVR eigi þar stóran hlut að máli. Ríkið hefur verið með stefnu og það hefur verið lagt í þá vinnu að breyta menningunni þannig að áfengisneysla snúist ekki um að fara á fyllirí. ÁTVR hefur virkilega gert sitt í því að reyna að beina áfengisneyslu í svolítið aðrar áttir. Mér þykir afar ólíklegt að stórmarkaðirnir haldi áfram á þeirri braut. Ég held að hvatinn þar verði meiri að selja bara og selja sem mest frekar en að stuðla að bættri áfengismenningu í landinu.