145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður telur að lýðheilsa sé engin tromprök og tekur jafnframt fram að frelsi sé heldur ekki tromprök og vegi ekki þyngra en lýðheilsa þá vekur það upp spurningu. Það hefur sýnt sig að við höfum náð betri tökum á þeim vandamálum sem fylgja áfengis- og vímuefnaneyslu með því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði. Af hverju ættum við að fara að rugga bátnum þegar allar rannsóknir erlendis sýna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skorar á Íslendinga að halda áfram á sömu braut og hafa áfengi áfram í einkasölu? Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og bent er á hinar fjórar Norðurlandaþjóðirnar sem hafa líka verið með það. Hversu veigamikil rök þarf til þess að hv. þingmaður taki mark á þeim? Er ekki komið nóg á þá vigt til þess að hann skilji (Forseti hringir.) að þetta eru stór og veigamikil rök, (Forseti hringir.) það hefur verið sýnt fram á þetta?