145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[13:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Til að kóróna þetta allt saman þá stóð forsætisráðherra upp rétt í þessu og við þingmenn fáum að sjá undir iljarnar á honum þegar við byrjum að ræða þetta mál.

Staðreyndin er þessi: Frá því í janúar á þessu ári hefur hæstv. forsætisráðherra í engu svarað beiðnum, af hálfu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, um að hér verði tekin sérstök umræða um verðtryggingu. Þá spyr maður sig: Hvers vegna?

Gæti það verið vegna þess að í aðdraganda síðustu kosninga lofuðu menn hér öllu fögru og eru svo að sjá að þeir geti ekki staðið við það? Er það ástæðan? Hvers vegna leyfa menn sér að hlaupa undan þingmönnum og sérstökum umræðum í tíu mánuði án þess að þingið segi nokkurn skapaðan hlut?

Virðulegi forseti. Þetta gengur ekki, en þetta segir kannski meira en mörg orð um stöðu málsins, afnám verðtryggingar, sem átti að vera stóra mál þessarar ríkisstjórnar. Staðan er augljóslega sú að forsætisráðherra hefur engin svör. (Forseti hringir.) Verðtrygging verður ekki afnumin á þessu kjörtímabili. Þess vegna leggur hann ekki í ræðustólinn hér og umræður um málið.