145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

afsláttur erlendra kröfuhafa slitabúa bankanna.

[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég svaraði þessari fyrirspurn hv. þingmanns í síðasta fyrirspurnatíma en þá barst hún frá tveimur öðrum þingmönnum, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og varaformanni Samfylkingarinnar. Hv. þm. Árni Páll Árnason virðist hafa misst af þeim umræðum og hefði getað sparað sér þessa fyrirspurn núna og notað hana kannski í eitthvað annað, t.d. spurt mig um verðtrygginguna sem ég heyrði ekki betur hér áðan en að lægi mjög á að ræða, en hv. þingmanni liggur greinilega ekki það mikið á og frekar kýs hann að spyrja aftur um það sem búið var að svara hér síðast.

Hann bætti þó við ítrekun á beiðni um fund í samráðsnefnd um þessi mál. Ég tel enga ástæðu til þess að bíða með það umfram það sem menn telja æskilegt, en mér hafði skilist að sameiginlegt mat manna hefði verið að þeir vildu bíða þess að fjármálaráðherra gæti hitt nefndina. Vilji menn ekki bíða eftir því held ég að það hljóti að vera hægt að kalla saman fund í þessari nefnd með skömmum fyrirvara því að það er ekkert að vanbúnaði að upplýsa stjórnarandstöðu og aðra um gang þessara mála. Það er greinilega ekki vanþörf á miðað við fyrirspurn hv. þingmanns sem virðist, eins og ég segi, líka hafa misst af umræðum í þinginu í síðasta fyrirspurnatíma.