145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

[14:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn þar sem vakin er athygli á mjög mikilvægu máli. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að eina af helstu ástæðum þess að brottfall er hátt má rekja til þeirra þátta sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni sem eru geðræn vandamál, kvíði og aðrar raskanir. Það er líka rétt, það ágæta dæmi sem hv. þingmaður reifaði hér varðandi Verkmenntaskólann á Akureyri og þá þjónustu sem þar er veitt.

Það sem ég hef verið að reyna að gera í ráðherratíð minni er að berjast við það að hækka framlagið á hvern nemanda í framhaldsskólunum. Það var komið hættulega langt niður í kjölfar kreppunnar. Ef ég man rétt var framlagið á verðlagi ársins 2014 eða 2015 komið að meðaltali niður í 890 þús. kr. í kerfinu en er nú um 1,1 millj. kr. þannig að okkur miðar smám saman.

Ástæðan fyrir því að þessi tala skiptir miklu máli er að hún lýsir svigrúmi því sem skólarnir hafa til að veita stoðþjónustu til nemenda umfram það sem hefðbundið er í venjulegu skólastarfi. En þetta er mjög mikilvægur þáttur og ég tel að það þurfi að sinna þessu enn betur en gert hefur verið. Ég vil þó benda á að við höfum náð verulegum árangri í grunnskólakerfinu okkar og reyndar í framhaldsskólunum þegar kemur að einelti og þar hafa Olweusaráætlunin og fleiri verkefni hjálpað mjög til. Við vitum að einelti getur síðar á lífsleiðinni verið grundvöllur að þunglyndi og kvíðaröskunum þannig að það er ýmislegt gert af okkar góða starfsfólki í skólunum sem snýr að því sem hv. þingmaður vakti hér máls á.