145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

ný stefna í ferðamálum.

[14:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem ég sakna úr þessu svari er svar við spurningunni: Hvað á að gera við ferðamálaráð? Í því eru fulltrúar frá stjórnvöldum, tveggja ráðherra að minnsta kosti, þ.e. frá Íslandsstofu og frá iðnaðarráðherra, í því eru fulltrúar sveitarfélaganna og líka fulltrúar ferðaþjónustunnar. Það má því eiginlega segja að kannski hefðu menn bara átt að bæta við ferðamálaráð aðilum frá hinum ráðuneytunum og skerpa síðan á lögbundnu hlutverki ráðsins, af því að annars hlýtur það að vera þannig að menn séu að fara að leggja það niður, eða hvað? Mér finnst við vera farin að dreifa kröftunum ansi hressilega þegar sömu aðilar eru farnir að tilnefna í fleiri en eitt batterí sem eru að gera það sama.

Þá skiptir líka máli, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra noti síðustu mínúturnar sínar í að segja okkur hvernig í ósköpunum mönnum datt í hug að leggja svona af stað í málið, að ráða án auglýsingar fyrir jafn háar upphæðir og raun ber vitni. Auk þess, virðulegi forseti, er áætlað að verkefnið sé til fimm ára. (Forseti hringir.) Þá spyr maður sig: Hvernig gengur það upp ef menn ætla sér að hafa skarpa langtímasýn að fara þannig (Forseti hringir.) af stað með verkefnið að ráða fram hjá Ríkiskaupum aðila (Forseti hringir.) sem kemur inn án auglýsingar?