145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:27]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Það er vont þegar svona mál koma upp í samfélaginu og vöntun á því að Alþingi ræði um þau. Núna helgaðist það einna helst af því að hér var kjördæmavika akkúrat í kjölfar þessarar miklu umræðu í fjölmiðlum. Ég hef nú þegar óskað eftir því að atvinnuveganefnd taki þetta mál til umfjöllunar, þá sérstaklega eftirlitshlutverkið þannig að við þingmenn getum verið fullviss um að ef það er eitthvað í okkar eftirlitskerfi sem upp á vantar getum við brugðist við því.

Svo langaði mig aðeins að koma inn á að nýlega settust inn á fund atvinnuveganefndar fulltrúar bænda úr hinum ýmsu stéttum. Þar var mikið verið að ræða nýtilkominn tollasamning við Evrópusambandið. Við ræddum einmitt þau tækifæri sem felast í þessu þó að það fari augljóslega uggur um marga í stéttinni vegna þess að þetta breytir miklu fyrir þá. Ég held að það sé einmitt mikið tækifæri fyrir Ísland og íslenskan landbúnað að skapa sér sérstöðu í velferðarbúskap og að við framleiðum hér og stöndum að mjög hreinni vöru sem tryggir góðan aðbúnað dýra. Ég held að þetta sé sóknarfæri fyrir bændur í landinu og greindi það að þeir litu líka svo á en það þyrfti kannski stuðning og aðstoð við það.

Ég mundi vilja sjá meiri umræðu um að við ættum að fókusera meira á þetta, sérstaklega í samkeppni á hinum stóra markaði. Þar er ekki verið að tala um ódýrustu vöruna, heldur erum við með sérstakar dýrar vörur eins og við höfum náð að skapa okkur forskot í sjávarútvegi með flutningi á ferskum fiski. Ég mundi í þessu samhengi bara vilja sjá þetta sem eitthvað sem stjórnvöld hér aðstoðuðu bændur við og aðra þá sem eru að vinna þessa vöru.