145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:29]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa sérstöku umræðu hér í dag. Ég vil af því tilefni hvetja svína- og kjúklingabændur til að snúa nú vörn í sókn. Ég hvet þá til að gera þær lagfæringar sem þarf til að búin þeirra standist reglur um dýravelferð og gera það eins fljótt og nokkur kostur er. Ég hvet líka samtök neytenda og neytendur sjálfa til að fara fram á það að merkingar á kjötvörum á Íslandi verði stórbættar. Neytendur eru besta aðhaldið.

Mig langar fyrst til að tala um hvers vegna íslensk framleiðsla er svona mikilvæg og hvers vegna gríðarleg tækifæri eru innan greinarinnar fyrir svína- og kjúklingabændur. Hvers vegna er þetta kjöt svona mikilvægt fyrir fæðuframboð á Íslandi? Það er vegna þess að hjá íslenskum bændum er að finna meiri hreinleika í afurðum en þekkist í innfluttu kjöti vegna þess hve lítið er notað af lyfjum. Í þessu sambandi er stundum talað um að á Íslandi sé notaður einn fúkkalyfjaskammtur á móti 20 í flestum samkeppnislöndum okkar. Víða í samkeppnislöndunum er neytendum einfaldlega nóg boðið og það haft í flimtingum að nóg sé að kaupa sér kalkúnabringu þegar fólk fær bakteríusýkingu því að það er svo mikið magn af pensilíni í slíku kjöti.

Þegar ég fer út í búð vil ég í fyrsta lagi geta séð á umbúðunum innihaldslýsingu á því hvort um er að ræða innlent eða erlent kjöt. Þá vil ég að það sé vottun á umbúðunum um það hvort dýravelferð sé fylgt við framleiðslu á umræddu kjöt.

Svo vil ég ljúka máli mínu með því að taka undir vonbrigði sem framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda lýsir yfir í fjölmiðlum í dag þar sem í ljós kemur að kýr eru hafðar inni allan ársins hring þó að það hafi verið (Forseti hringir.) ólöglegt í tvö ár.