145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við í þessum sal látum velferð dýra okkur varða. Mér eins og öðrum hefur blöskrað verulega þau dæmi sem dregin hafa verið fram þökk sé netinu og mætti þess og samfélagsmiðlunum sem ná núna að birta okkur það sem áður hefur verið falið fyrir okkur og það ber að þakka. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með í fyrsta lagi viðbrögð stjórnvalda við því sem verið er að birta innan úr þessum búum og í öðru lagi með viðbrögð greinanna sjálfra. Ég hefði haldið að við þessar aðstæður vildu menn komast hjá því að lenda í því að það yrði vantraust og fólk hætti í stórum stíl að kaupa ákveðnar vörur og vildu því frekar draga fram hvar hlutirnir eru í lagi og birta lista yfir skussana, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) birta lista yfir þá sem standa sig illa og koma illa fram við dýrin. Ég fullyrði að enginn sem neytir dýraafurða vill neyta dýraafurðar sem kemur af dýri sem hefur þjáðst, enginn. Þess vegna á að birta þessa lista. Á meðan ríkir vantraust og þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að taka fast á þessu og við eigum ekki í siðuðu samfélagi að þola það að menn séu skrifaðir á einhvern lista og þeim gefinn aðlögunartími til að laga til hjá sér þegar beinlínis er verið að meiða dýr, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) meiða lifandi verur. Þá á að vera, og ég biðst velvirðingar á því að ég ætla að nota hér enska tungu, „zero tolerance“ og það á að loka þangað til menn hafa lagað til hjá sér, hvort sem um er að ræða framleiðslu sem síðan skilar sér sem ódýrari vara eða dýrari útflutningsvara. Það skiptir engu máli. Öll framkoma við dýr á að vera siðuðu samfélagi til sóma.