145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:42]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu um dýravelferð og aðbúnað dýra og er löngu tímabært að við ræðum matvælaframleiðslu út frá annarri umræðu en um kílóverð og styrki. Enginn hér hefur komið í stólinn til þess að réttlæta þann slæma aðbúnað dýra sem hefur verið sýndur í fjölmiðlum. Ég tek undir það með þeim að við líðum ekki slæma meðferð á dýrum. Það hefur enginn gert.

Við skulum aðeins líta á hvaða kröfum bændur standa frammi fyrir. Fyrst skulum við skoða kröfuna um sífellt stærri framleiðslueiningar. Dýravelferð er ekki endilega verri í stærri einingum. Það kemur meðal annars fram í því að í nýjum einingum er oftast nútímaleg umgjörð sem er dýravelferð hagstæð, en almennt séð liggur líka í augum uppi að eftir því sem dýrafjöldinn er meiri fær hvert dýr minni tíma. Í því liggur ákveðin hætta. Næst skulum við skoða kröfuna um sífellt hærra vöruverð. Lægra verð á endanlegri vöru setur pressu á allt framleiðsluferlið, á fóðrið sem dýrið þarf, á það að vinnuafl sé ódýrt og í lágmarki, að framleiðslutíminn sé stuttur og flutningar mjög afkastamiklir. Ekkert af því er sjálfkrafa vont fyrir dýravelferð en hættunni er þó boðið heim.

Lítum aðeins á viðtakandann eða verslunarveldin. Þar er allt í blóma og afkoman góð. Þar ættu menn að hafa efni á dýravelferð, eða hvað? Hvað auglýsa þessi ágætu fyrirtæki? Jú, þau auglýsa ódýran mat, tilboð á vörum og oftar en ekki kjöti, sem á að draga fólk inn í búðirnar í því trausti að fólk muni grípa eitthvað annað með sér í leiðinni. Sú staðreynd að íslensk verslun setur pressu á matvælaframleiðsluna felur í sér hættu sem kemur umræðunni um dýravelferð við.

Með framangreint og allt þetta í huga vil ég einungis segja að ég skora á og treysti á að hæstv. landbúnaðarráðherra leggi í yfirstandandi samningaviðræðum sínum við bændur áherslu á dýravelferð á þeim nótum sem málin hafa verið rædd hér. Það er óhætt að fullyrða að dýravelferð hérlendis er enn með því besta sem þekkist, þrátt fyrir allt, og (Forseti hringir.) það skulum við varðveita áfram.