145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skilaboð þingmanna eru skýr. Ill meðferð dýra verður ekki liðin. Fjölmargir þingmenn kalla líka eftir því að upplýst verði um það hverjir hafa brotið gegn dýrunum þannig að aðrir liggi ekki undir ámæli og fólk þurfi ekki að eiga viðskipti við þessa aðila frekar en það vill.

Ég er í meiri vafa um skilaboðin frá ráðherranum. Mér fannst ráðherrann einhvern veginn segja að það væru stór orð mín, Helga Hjörvars, sem væru eitthvert vandamál hér í umræðunni. En málaflokkurinn væri bara í góðu lagi og þar væri verið að vinna góðum hlutum framgang.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég held að annað hafi blasað við okkur undanfarna daga. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að ráðherrann hafi ekki áform um lagabreytingar um auknar heimildir um aðgerðir til að geta tekið fastar á þessum málum, til að geta tekið af festu á þeim lögbrotum. Því að vissulega er það þannig að íslenskt bændafólk eins og Íslendingar upp til hópa er sómafólk. Það er einmitt þess vegna gríðarlega mikilvægt að tekið sé með festu á lögbrotum. Þó að sjálfsagt sé að stuðla að jákvæðri hvatningu til að kaupa vöru beint frá býli, vöru sem staðfest er að hafi mætt hinum og þessum sjónarmiðum og gæðakröfum, þá munum við ekki útrýma illri meðferð á dýrum með því einu. Þar verður lögfesta, reglufesta, agi og aðhald að vera í fyrirrúmi.

Ég spyr aftur: Á ekki að kæra fyrir brot á þessum lögum eins og öðrum lögum? Á ekki að veita upplýsingar um það og afla þá lagaheimilda til þess ef þarf hverjir brjóta svona gegn dýrum? Á ekki að stöðva niðurgreiðslur og opinbera styrki til aðila sem verða uppvísir að brotum gegn lögum um dýravelferð?