145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[14:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í annað sinn fyrir frumvörpum á þingskjölum 205 og 206, sem eru mál nr. 199 og 200, en um er að ræða annars vegar frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir, sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, og hins vegar frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Með frumvarpi til laga um Haf- og vatnarannsóknir er lagt til að Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun verði sameinaðar í sjálfstæða rannsókna- og ráðgjafarstofnun, Haf- og vatnarannsóknir, frá 1. janúar 2016. Markmið sameiningarinnar er að búa til öfluga rannsóknastofnun og efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni. Þess er fyrst og fremst vænst að með sameiningunni náist fram faglegur og stjórnunarlegur ávinningur sem komi fram í enn öflugri stofnun með fjölbreyttari þekkingargrunni starfsfólksins. Megináhersla er lögð á faglega styrkingu og aukna skilvirkni, en auk þess má reikna með nokkrum fjárhagslegum samlegðaráhrifum, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið.

Stofnunin heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem skipar henni forstjóra og ráðgjafarnefnd honum til ráðuneytis, en ekki er gert ráð fyrir sérstakri stjórn við stofnunina. Áhersla er lögð á að hin nýja stofnun ræki samstarf við háskóla og aðra rannsóknastofnanir á sama sviði.

Þá er skilgreint í frumvarpinu hvernig stofnunin verði fjármögnuð og henni veitt heimild til, að fengnu samþykki ráðherra, að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem hagnýta niðurstöðu frá stofnuninni og geta verið hlutafélög og/eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð. Þannig eru hinni nýju stofnun ætluð sömu meginhlutverk og Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun sinna nú og gert ráð fyrir að stofnunin fái sambærileg starfsskilyrði stjórnskipulega.

Hugmyndin um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar er ekki ný af nálinni. Árið 2009 fól þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ráðgjafarfyrirtækinu ParX viðskiptaráðgjöf IBM að meta möguleika til frekari samþættingar við framkvæmd verkefna stofnana sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þær stofnanir sem komu til skoðunar voru Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Matvælastofnun og fyrirtækið Matís ohf.

Í skýrslu ParX voru settar fram þrjár tillögur og þar af ein um samþættingu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar. Um það segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Sú hugmynd sem oftast var nefnd í vinnu ráðgjafa var að Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun yrðu gerðar að einni stofnun. Lagt er til að það yrði gert á grundvelli samþættingar sem felur í sér að starfsemin yrði mótuð að nýju frá grunni og viðfangsefni, aðferðir og verkferlar samþætt í nýju skipulagi og fyrirkomulagi.“

Þá segir enn fremur áfram, með leyfi forseta:

„Það er mat ParX að í þessari tillögu um samþættingu á starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar og Veiðimálastofnunar felist faglegur, stjórnunar- og rekstrarlegur ávinningur í þeim verkefnum sem heyra undir þær í dag. Mikilvægt er að fram komi að þessi tillaga felur ekki í sér að önnur stofnun yfirtaki aðra, þ.e. að sú minni verði svið eða deild innan þeirrar stóru, heldur fremur að til verði ný stofnun þar sem vísindamenn, stjórnendur, gagnagrunnar og arfleifðin myndi grunn að nýrri og breyttri starfsemi sem tekur mið af breytingum í fjárhagslegu umhverfi opinbers rekstrar á Íslandi.“

Í framhaldi af vinnu ParX fól þáverandi ráðherra sama ráðgjafa, sem þá hafði sameinast Capacent, að vinna með forstjórum Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, ásamt skrifstofustjóra í ráðuneytinu, að nánari greiningu og mati á samstarfsmöguleikum stofnananna. Sú vinna fór fram og skilaði Capacent skýrslu sem er fylgiskjal með frumvarpi þessu. Starfshópurinn lagði til að stofnanirnar gerðu með sér heildstæðan samstarfs-, rannsókna- og þróunarsamning sem meðal annars fæli í sér samrekstur á stoðþjónustu og að stofnanirnar mundu deila húsnæði.

Af ýmsum ástæðum varð ekki af neinni samþættingu og ekki var gengið frá samstarfssamningi milli Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar á síðasta kjörtímabili. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar, þar sem áhersla er lögð á að hagræða og auka skilvirkni stofnana, samhæfa rekstrargrunna og rekstrarumhverfi ríkisstofnana sem stunda rannsóknir og þróun og sameina stofnanir, ákvað ég að láta semja frumvarp um sameiningu umræddra stofnana og byggði þá meðal annars á undirbúningsvinnu þeirri sem ég hef nú lauslega greint frá og fylgir frumvarpinu.

Eins og áður greindi er meginmarkmið með sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar að styrkja þessa starfsemi faglega, ná fram aukinni skilvirkni og auka aðkomu og samstarf við háskóla á sviði haf- og vatnarannsókna. Auk þess má reikna með nokkrum sparnaði þegar fram í sækir eins og fram kemur í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Ég vil þó í því sambandi draga fram þá staðreynd að verulega hefur þrengt að rekstri Hafrannsóknastofnunar og reyndar einnig Veiðimálastofnunar síðastliðinn áratug sem ég veit að hv. þingmönnum er vel kunnugt um. Ég tel því einsýnt að reynt verði að láta starfsemina njóta þess sparnaðar sem sameiningin getur skilað á komandi árum. Sú leið er farin í þessu frumvarpi að öll störf hjá Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun verða lögð niður við gildistöku laganna, en öllum starfsmönnum skulu boðin störf við hina nýju stofnun og haldi þá áunnum réttindum samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frumvarpið gerir og ráð fyrir því að þegar og ef það verður að lögum sé strax heimilt að auglýsa starf forstjóra og er hugsunin sú að hann hafi sem rýmstan tíma til að skipuleggja nýja stofnun og ganga frá starfsmannamálum áður en stofnunin tekur til starfa 1. janúar 2016.

Frumvörpin voru, auk þess að vera til kynningar á vef ráðuneytisins í sumar, send helstu hagsmunaaðilum er málið varða og öllum hlutaðeigandi stéttarfélögum til umsagnar. Athugasemdir í umsögnum sneru að réttinda- og kjaramálum starfsfólks, formi sameiningar og nafngift og ein krafa kom fram um tiltekið innra skipulag nýrrar stofnunar. Farið var vandlega yfir umsagnirnar í ráðuneytinu, en ekki talið rétt að breyta frumvarpinu. Með sameiningu stofnananna sem hér um ræðir næst fram samþætting í störfum, samstarf við háskólasamfélagið verður styrkt og tækifæri til samnýtingar tækja og búnaðar aukast. Rætt hefur verið um að fækka og stækka rekstrareiningar ríkisins og er þetta frumvarp liður í þeirri aðgerð.

Verði frumvarpið að lögum verður til öflug rannsóknastofnun á sviði haf- og vatnarannsókna sem ætla má að sé samkeppnisfærari en fyrr þegar kemur að samstarfi í alþjóðaverkefnum og sókn í samkeppnissjóði sem því tengjast.

Með frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar er einungis breytt nöfnum stofnananna þar sem vísað er til þeirra í lögum nema í tveimur tilfellum þar sem fjallað er um tilnefningar af hálfu stofnananna.

Herra forseti. Frumvörp þessi hafa áður verið lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi, þ.e. síðastliðið vor eða veturinn 2014–2015, en voru ekki útrædd. Við meðferð málsins fyrir Alþingi lagði atvinnuveganefnd fram tilteknar breytingartillögur á frumvarpinu. Í frumvörpum þessum er ekki tekin afstaða til eða fjallað um umræddar breytingartillögur, en gert ráð fyrir að við meðferð málsins á Alþingi nú muni atvinnuveganefnd áfram gera viðeigandi breytingartillögur á frumvarpinu sem teknar verða til umræðu á þinginu í samræmi við gildandi reglur um það efni.

Virðulegi forseti. Á fylgiskjölum með frumvörpum þessum er að finna kostnaðarumsagnir fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvörpin. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerða þeirra er fylgja frumvörpunum, en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þeirra.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.