145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir skjót og jákvæð viðbrögð við beiðni minni um að ræða hér við hann um verðtryggingu.

Eins og kunnugt er orðið hef ég lengi átt beiðni um sérstaka umræðu við forsætisráðherra varðandi verðtrygginguna og geri ráð fyrir að hann verði við þeirri beiðni minni á næstu dögum en ætla að nota tímann þangað til til að ræða við ýmsa aðra.

Eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var afnám verðtryggingar. Það var skipuð nefnd og hún skilaði tillögum í janúar 2014 og þann 9. maí 2014 birtist frétt á vef forsætisráðuneytisins um að frá og með 1. janúar 2015 ætti að stíga veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána og vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016. Við höfum nú ekkert séð af þessum boðuðu aðgerðum og þeirra sér ekki stað á málaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þingveturinn.

Mig langaði því að spyrja hv. þm. Willum Þór Þórsson þriggja spurninga:

Í fyrsta lagi spyr ég hvort hann sé sáttur við þetta aðgerðaleysi.

Í öðru lagi spyr ég hvort hann viti hvaða vinna sé í gangi hjá ríkisstjórninni til að efna kosningaloforðið um afnám verðtryggingar.

Að lokum vil ég spyrja hann hvort hann telji að verðtrygging á nýjum neytendalánum verði afnumin á kjörtímabilinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna