145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að fá tækifæri til að ræða um verðtrygginguna og þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að óska eftir því. Af því að hv. þingmaður kom fyrst í máli sínu inn á hinn skýra vilja framsóknarmanna vil ég byrja á að staðfesta það að þetta er sannarlega eitt af þeim málum sem Framsóknarflokkurinn lagði áherslu á í aðdraganda kosninga og í stuttu máli kemur fram í ályktunum á flokksþingum að taka verði á verðtryggingunni svo sagan endurtaki sig ekki sem og að afnema skuli verðtryggingu á neytendalánum. Þessu var fylgt eftir í flokksályktun á þingi 2015.

Ég held að þessi vísa verði ekki skýrar kveðin af hálfu framsóknarmanna og mér finnst mikilvægt að fara yfir tímalínu ríkisstjórnarinnar til að svara þeim afmörkuðu spurningum sem komu í lokin á þeirri aðgerðaáætlun sem í upphafi starfstíma ríkisstjórnarinnar var lagt af stað með. Það er mikilvægt í því samhengi að við áttum okkur á að með þingsályktun erum við á Alþingi að fela ríkisstjórninni að fara í þetta mál.

Þar var samþykktur liður 6, að setja á fót sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

„Tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í lok árs 2013,“ stendur þar og það stóðst. Það var í fullu samræmi við þá áætlun. Þá skilaði sérfræðingahópurinn skýrslu í janúar 2014, öllu heldur tveimur skýrslum þar sem hópurinn klofnaði í afstöðu sinni. Önnur skýrslan var afgerandi um að afnema bæri verðtryggingu af nýjum neytendalánum. Skýrsla meiri hlutans var á þá leið að slíkt yrði gert í skrefum. Áætlunin hingað til hefur haldið, virðulegi forseti. Ég tek þó undir með hv. þingmanni, að þá vegferð sem Alþingi fól ríkisstjórninni að fara í þarf að klára. Ég fagna því að Alþingi og alþingismenn kalli eftir því og ég tek (Forseti hringir.) þátt í því.


Efnisorð er vísa í ræðuna