145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við gerðum að umtalsefni fyrir stuttu hér í þessum ræðustól þá stöðu sem uppi er varðandi stjórnsýslu Seðlabanka Íslands og hugsanlega framgöngu hans í málum er snerta brot á gjaldeyrisreglum. Ég fagna því að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli hafa tekið bréf umboðsmanns Alþingis til frekari skoðunar og hyggist skoða þetta mál. Það skiptir verulegu máli þannig að ég leyfi mér að fagna því.

Mig langar hins vegar að gera Landspítalann að umtalsefni og ekki vegna þess að yfirvofandi eru verkföll. Í rúman áratug hefur verið unnið að því að endurbyggja Landspítalann við Hringbraut. Það hefur valdið ágreiningi og margir bjóða nú fram krafta sína og lóðir til þess að kalla spítalann á annan stað.

Við erum hér með deiliskipulag. Við erum hér með fjárlög og samþykkt Alþingis um að byggja Landspítalann upp á því svæði þar sem hann er. Ég tel að þeirri vegferð eigum við að halda áfram. Ég tel hins vegar að það sé líka tímabært nú — í ljósi þess hversu langan tíma tekur að hanna, velta fyrir sér staðarvali og öðru í þeim dúr — að huga að spítala á öðrum stað innan 10–15 ára. Þess vegna sé þarft að skoða þau mál sem hér eru uppi, undir (Forseti hringir.) kjörorðinu Betri spítali, ef ég man rétt, að horft sé til langrar framtíðar í því að við þurfum innan ekki svo langs tíma annan spítala sem þjónar okkur öllum.


Efnisorð er vísa í ræðuna