145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fékk á Facebook-síðu mína áðan ágætissendingu frá framkvæmdastjóra Samtaka krabbameinssjúkra barna sem vakti athygli mína og annarra á því að franska þingið samþykkti á síðasta ári lög sem heimila nafnlausa gjöf frídaga til samstarfsfólks með alvarlega veik börn. Hugmyndin kviknaði eftir að faðir krabbameinssjúks drengs fékk 170 frídaga í gjöf frá samstarfsmönnum sínum. Framkvæmdastjórinn Gréta Ingþórsdóttir spurði hvort það þyrfti lagabreytingu til til að láta þetta verða að veruleika. Ég veit það ekki, en ég vildi vekja athygli á þessu sem mér finnst vera mjög góð hugmynd. Það er gert hér með og ég held að við ættum að fylgja þessu eftir á þessum vettvangi og annars staðar.

En ég vildi líka ræða annað og það er allt annars konar mál. Enn og aftur eru komnar fréttir og voru núna fréttir um það á forsíðu Morgunblaðsins að tölvupóstum hefði verið eytt í Stjórnarráðinu. Nú veit ég að það þarf að hafa svolítið mikið fyrir því að eyða tölvupóstum þannig að þeir finnist ekki aftur. Ég vil beina því til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að kanna hvernig þetta er gert. Hverjir geta eytt tölvupóstum svo þeir finnist ekki aftur? Af hverju er það svo að allir starfsmenn Stjórnarráðsins geti gert þetta? Eða eru það einhverjir ákveðnir? Það virðist gerast af einkennilegustu tilefnum að tölvupóstar hverfa úr kerfum en alla jafna eru þeir eftir því sem ég best veit geymdir svo árum og áratugum skiptir af góðri ástæðu.


Efnisorð er vísa í ræðuna