145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða um dómskerfið eða refsilöggjöfina. Við höfum heyrt fréttir af því að hollensk kona hafi verið dæmd í 11 ára fangelsi fyrir að flytja inn til landsins töluvert magn af fíkniefnum. Þetta hefur vakið upp ýmsar spurningar vegna þess að refsiramminn er 12 ár og maður spyr sig hvernig höfuðpaurunum, skyldu þeir einhvern tímann nást, verði refsað. Í rauninni er refsiramminn fullnýttur. Á sama tíma lesum við fréttir af ýmsum dómum sem varða kynferðisbrot gagnvart börnum sem mörgum finnst heldur vægir. Ég held að þyngsti dómur í slíku máli hafi verið tíu ára fangelsi. (Gripið fram í.) Þegar dæmt er til svo langrar fangelsisrefsingar fyrir þannig brot er mikið búið að ganga á og ekki fyrir venjulegt fólk að lesa dómana því að þetta eru hryllileg mál.

Mér hefur fundist hér á þingi og annars staðar sem mönnum finnist þessir fíkniefnadómar komnir út í vitleysu. Ég spyr: Á ég að standa hér sem alþingismaður og ræða þetta? Dómstólarnir verða að vera sjálfstæðir og við eigum ekki að reyna að hafa áhrif á þá, en það erum við sem búum til löggjöfina. Eigum við þá að potast í hæstv. innanríkisráðherra að breyta löggjöfinni, koma með nýja löggjöf inn í þingið, eða er óhugsandi að þingið, löggjafarvaldið, taki slík verkefni að sér? Ég er alltaf meira og meira hugsi yfir því sem ég veit að margir þingmenn, m.a. Pétur Blöndal heitinn, tala mikið um, hvað þingið hefur litla aðkomu að því að búa til frumvörp. Nefndir gera til dæmis ekki mikið af því að flytja sameiginlega þverpólitísk mál.

Ég vil bara kasta þessu hérna fram, ef við erum ósátt við þetta og teljum að (Forseti hringir.) dómar í fíknaefnabrotum séu orðnir allt of þungir og í engu samræmi við önnur brot, er (Forseti hringir.) það þá ekki okkar bregðast við? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna