145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið og ágæta spurningu. Í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að opna á notkun þjóðfánans eins og hann birtist og hangir hér fyrir aftan virðulegan forseta, þótt það verði eflaust einhver blæbrigðamunur á því hversu stórt merkið er eða hvort fáninn verður sýndur blaktandi eða ekki. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að margt mælir með því að menn búi til tákn, eitthvert „logo“, nú lendi ég í vandræðum eins og virðulegur þingmaður áðan. Hvað köllum við „logo“ á íslensku? Merki, hv. þingmaður skilur hvað ég á við, eitthvert merki sem menn geti notað til þess að merkja ekki aðeins vöru heldur líka til dæmis sölu ferða til Íslands, svona heildarmarkaðssetning út frá einu sameiginlegu merki. Það er þá til viðbótar við þetta.

Eins og hv. þingmaður eflaust þekkir hafa verið í gangi heilmiklar vangaveltur um slíkt. Framleiðendur íslenskrar vöru og þjónustu hafa verið að velta því fyrir sér hvort hægt væri að koma slíku á og hver væri besta leiðin til þess. Stjórnvöld vilja gjarnan sjá það gerast, hafa fylgst með þeirri vinnu og munu taka undir og stuðla að því að af þessu geti orðið.