145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra lauk máli sínu áðan með því að bjóða mér, yfir þetta ræðupúlt, til fundar þar sem fram færi næringarnám og hann ætlar að bjóða mér upp á köku eða tertu. Þetta er viðkvæmt mál fyrir okkur báða, það vitum við báðir tveir, enda sló hann ákveðinn varnagla, sagði að það yrði þó einungis gert næst þegar hann fengi leyfi. Nú veit ég ekki hvar hæstv. ráðherra á að fá leyfi til þess, en ef hann á við hv. þm. Helga Hjörvar skal ég hafa milligöngu um það.

Að öðru leyti ítreka ég stuðning minn við frumvarpið. Mér fannst þau orð sem hv. þm. Karl Garðarsson fór með áðan vera athyglisverð. Ég lít nú ekki svo á að hann hafi gamaldags skoðanir þó að hann vilji ganga hægt um dyr í upphafi. Ég tel að þegar menn eru að feta sig út á þá slóð sem við höfum aldrei farið áður eigum við að vera íhaldssamir. Við eigum að meta reynsluna af því hvernig til tekst og alltaf er hægt að breyta lögum í framtíðinni ef menn sjá einhverja skavanka á þeim. Ég hallast frekar að því að vera á sömu íhaldssömu nótunum og hv. þingmaður, að minnsta kosti hvað varðar upphaf þessarar vegferðar.

Fleira vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns. Hann orðaði það svo að Ísland væri orðið verðmætt tákn eða vörumerki. Það kann að vera. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að Ísland hafi áður fyrr, að því er varðaði markaðssetningu á matvælum, verið enn verðmætara. Það var á þeim tímum þegar hér voru sterk sölusamtök sem einbeittu sér að því að selja fyrir mörg fyrirtæki á Íslandi með sameinuðu afli íslenska framleiðslu sína. Þá var það Ísland sem var verið að selja ekki síst og það var Ísland sem var í öndvegi. Á þeim tíma hefði verið mjög þarft að geta haft eitt sameiginlegt tákn sem byggði á þjóðfánanum til þess. Við vitum síðan að þróunin hefur klofið markaðssetninguna upp og þó að harkan í íslenskum sölumönnum, sérstaklega að því er varðar sjávarafurðir, sé slík að við höfum meira en haldið sjó, til dæmis gagnvart mikilli framleiðslu til viðbótar úr Barentshafi og stundum undirboðum af hálfu frænda okkar Norðmanna, þá er það eigi að síður svo að í dag eru menn til dæmis að selja íslenskar sjávarafurðir fyrst og fremst frá tilteknu fyrirtæki en miklu síður sem íslenska vöru. Þetta er mín skoðun.

Ég hef þess vegna eins og ég gat um áðan sett fram viðhorf mín á þessu máli, bæði í ræðum hér í þinginu en ekki síður í ítarlegum og löngum greinum í hinu merka blaði Morgunblaðinu. Ef hæstv. forsætisráðherra fær ekki leyfi til að borða köku með mér þá tel ég að við getum alveg leyst það mál með því að senda honum síðasta langhund minn sem ég birti fyrr í Morgunblaðinu. Hann gæti hugsanlega orðið margs vísari.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi mikla möguleika til að hafa ákveðið forskot á samkeppnisþjóðir hvað varðar sjávarafurðir. Það er vegna þess að sjávarafurðir okkar eru mjög hreinar. Þær koma úr mjög hreinu hafi og það er auðvelt að selja íslenskar afurðir sem hreina vöru, menn nota stundum orðið „vistvæna“ sem er dálítið loðið hugtak. En ég tel að með einbeittri markaðssetningu af Íslands hálfu þar sem Ísland er vörumerkið og tákn þess einhvers konar staðlað form á þjóðfánanum, þá geti það orðið mjög verðmætt vörumerki í framtíðinni. Að sama skapi tel ég að einmitt gæðaímyndin sem fer af íslenskum sjávarafurðum sem hafa rutt brautina hvað þetta varðar geti gagnast mjög auknum útflutningi á landbúnaði. Það er alltaf tabú að tala um útflutning á landbúnaði af því hann er lítill, hann framleiðir ekki mikið og hann er niðurgreiddur, þó að það sé að vísu svo að á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi hafi niðurgreiðslur á íslenskum landbúnaðarvörum minnkað úr því að vera 4,5% af landsframleiðslu niður í það að vera hálft prósent. Þróunin er því öll í rétta átt. Ég gæti svo sem farið með dýpri ræðu um það af hverju ég held að hún muni halda áfram í þá átt.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að útflutningur á landbúnaðarafurðum eigi framtíð fyrir sér. Það er út af tvennu. Í fyrsta lagi vegna þess að hægt er að selja vörur úr íslenskum landbúnaði sem nánast hreina vöru vegna þess að það er alveg sama hvar maður ber niður þá notar íslenskur landbúnaður miklu minna af áburði á ræktaða einingu, hann notar miklu minna af lyfjum, varan er miklu hreinni. Svo er líka hitt að við höfum verð laus við ýmsa sjúkdóma sem hafa nánast lagt í rúst tímabundið að minnsta kosti heilar búgreinar, eins og nautakjötsframleiðslu á meginlandi Evrópu. Í fyrsta lagi er það hreinleikinn. Í öðru lagi mun þar njóta ljómans af því orðspori sem fer af íslenskum sjávarafurðum.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að grípa utan um allan útflutning Íslands á matvælasviði og sömuleiðis taka þar inn ferðaþjónustuna og markaðssetja það allt í krafti hreinleika Íslands sem er að verða mjög eftirsóttur. Mér finnst sjálfsagt eftir að frumvarpið er komið fram og eftir að búið er að samþykkja það, þá verði það gert með þeim hætti að í öndvegi slíkrar markaðssetningar verði staðlað merki sem byggist á þjóðfánanum.

Hvað gera aðrar þjóðir? Ef maður fer inn í búðir á meginlandinu sér maður í hillum þar í fyrsta lagi danska skinku með danska fánanum, maður sér norska laxinn með norska fánanum og svona mætti telja hverja vörutegundina á fætur annarri sem er með einhverjum hætti einkennandi fyrir viðkomandi land. Við eigum með því móti að byggja upp okkar eigið vörumerki þar sem hæstv. forsætisráðherra, af því honum varð orðs vant eins og mér, kallaði „logo“. Það er svona, þetta skiptir máli, en tekur langan tíma. Það getur vel verið að þetta verði dýrt, en það er fjárfesting sem mun borga sig ef menn ráðast í það til dæmis að fá Íslandsstofu það verkefni að markaðssetja Ísland með þessum hætti.

Ef okkur tekst að hasla okkur völl fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum, til dæmis á þeim syllum þar sem menn eru reiðubúnir á markaðnum að greiða hátt fyrir vöru sem er nánast hrein, þá sjáum við að ákveðin tækifæri eru fyrir hendi. Í dag framleiðum við 8–9 þús. tonn af lambakjöti. Jú, við höfum átt í erfiðleikum með að selja það vegna þess að heldur hefur dregið úr innanlandsneyslu. Ríkisstjórnin var að feta ágæta slóð um daginn sem leiddi til þess að skrifað var undir samning sem eykur möguleika á tollfrjálsum útflutningi á lambakjöti á Evrópumarkað upp í 4.500 tonn. Við framleiðum 8–9 þús. tonn, en við höfum land, við þurfum ekki að brjóta nýtt land þó að við mundum fara í það að auka framleiðslu á lambakjöti upp í 15 þús. tonn. Við þurfum ekki að brjóta neitt land. Land er fyrir hendi. Við þurfum að rækta það. En við nýtum það ekki í dag.

Það sem ég á við er að ákveðin tækifæri eru fyrir hendi varðandi útflutning á því sem við getum flokkað sem hefðbundnar landbúnaðarafurðir. Það þarf ekki að ráðast í rosalegar fjárfestingar til þess að nýta það sem er fyrir hendi.

Það bjargar náttúrlega ekki þjóðarhag þó að við flytjum út kannski 6 þús. tonn til viðbótar af lambakjöti. En það getur bjargað mörgum byggðum sem við köllum jaðarbyggðir í dag. Þetta eru byggðir á tilteknum stöðum á Suðurlandi, á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Það getur vel verið að það streymi ekkert sérstakt fé í ríkiskassann, en það skellir nýjum stoðum undir þær byggðir. Það skiptir bara svo miklu máli vegna þess að við erum mörg í þeim hópi sem telur að Ísland eigi að vera í byggð. Ég er þeirrar skoðunar að ef það kostar með einhverjum hætti af hálfu hins opinbera og þar með skattgreiðendur, þá er ég sem skattgreiðandi reiðubúinn til að axla þann kostnað. Vegna þess að þetta er hreinlega sýn mín á Ísland og partur af lífsskoðunum mínum, enda er ég í fararbroddi fyrir landbúnaðarvæng Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Þetta eru sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri. Ef rétt er spilað úr þeim möguleikum sem felast í frumvarpinu getur það leitt til töluverðra heilla fyrir útflutning frá Íslandi.

Svo er annað mál líka. Við förum von bráðar að taka á móti tveimur milljónum ferðamanna á hverju ári. Það er gríðarlegur fjöldi. Þetta er fólk sem sækir Ísland heim og kannanir sýna að 95–98% þess fer mjög ánægt til síns heima. Það man eftir Íslandi. Við þurfum að rifja upp Ísland í minni þess í hvert skipti sem það fólk fer út í búð til að kaupa sér vörur í matinn vegna þess að þar á að vera vara frá Íslandi, hvort heldur er kjöt eða fiskur, sem fólkið sér undir eins að er íslensk, því að þar væri íslenska táknið, sem byggir þá á fánalitunum og íslenska fánanum. Svona sé ég þetta fyrir mér. Svona á að vinna þetta.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn, þegar frumvarpið verður samþykkt, að skoða hvort ekki eigi að vinna á þeim grundvelli og fá þá Íslandsstofu, með því fjármagni sem hún hefur úr að spila núna eða með aukafjármagni, til að markaðssetja þetta merki og markaðssetja Ísland og hreinleika Íslands í heild.