145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:22]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef sjaldan verið jafn sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og í dag, ég get nánast tekið undir hvert orð sem hann sagði.

Það er alveg rétt hjá honum að vörumerkið Ísland varð til fyrir alllöngu síðan. Ég man eftir því í minni tíð þegar ég var blaðamaður, fréttamaður, fyrir 20–30 árum, að þá voru einmitt þessi stóru sölusamtök til sem hann minntist á, sem notuðu orðið „Iceland“ og „Icelandic“ á vörur sínar. Grunnurinn að því sem við höfum í dag er miklu eldri, það er alveg rétt. Þess vegna er mjög mikilvægt að skemma hann ekki.

Það sem hv. þingmaður einblíndi svolítið á var markaðssetning á matvöru. Það er hárrétt hjá honum að gríðarlega mikilvægt er að nota til dæmis íslenska fánann og sérstakt merki fyrir íslenskar matvörur sem eru markaðssettar erlendis og það yrði mikil lyftistöng fyrir landbúnaðarvörur, sjávarútveg o.s.frv. Við erum algjörlega sammála um þetta. Það þarf að fara í og má ráðast í stórt markaðsátak til viðbótar við það sem gert hefur verið til að koma þessum vörum á framfæri.

Það er ekki vandamálið sem ég minntist á í ræðu áðan. Ég var að tala um aðra þætti frumvarpsins þar sem frumvarpið sem slíkt nær ekki aðeins til matvara heldur líka allra annarra vara og þjónustu líka. Það er veiki hlekkurinn í frumvarpinu sem við þurfum að skoða betur.

Ég ætla að taka undir það sem hv. þingmaður sagði áðan. Það er gríðarlega mikilvægt að hægt sé að nota íslenska fánann og hann mun nýtast okkur gríðarlega vel á mörgum sviðum. Við þurfum bara að passa okkur á því að falla ekki ofan í þær holur sem eru á leiðinni.