145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

löggæslumál.

[10:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Einhvern tímann var sagt: Vilji er allt sem þarf. Vilji þingsins liggur fyrir. Sú skýrsla sem hæstv. ráðherra vitnaði til með þingmönnum úr öllum flokkum eða fulltrúum allra þingflokka er sú sama skýrsla og ég vitnaði til, en þeirri skýrslu hefur ekki verið fylgt eftir nema að litlu leyti og henni er ekki fylgt eftir í fjárlagafrumvarpi ársins í ár. Það sýnir að viljinn dugar ekki til, hann nær ekki nægjanlega langt. Við hljótum auðvitað að gera þá kröfu að við fylgjum eftir þessari samstöðu.

Hvað varðar kjörin vil ég segja að við finnum fyrir mikilli reiði í röðum lögreglumanna. Það er ekki síst vegna þess að möguleikar þeirra á að mótmæla kjörum sínum eru mjög takmarkaðir. Þeir hafa ekki verkfallsrétt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að hér liggur fyrir frumvarp þriggja þingmanna, og jafnvel fleiri, um að lögreglumenn fái verkfallsrétt eins og aðrar stéttir: Styður hæstv. ráðherra það? Ef ekki, er þá ekki enn brýnni þörf á að koma til móts (Forseti hringir.) við kröfur lögreglumanna þannig að hér (Forseti hringir.) verði tryggður stöðugleiki og öryggi almennings?