145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

áhrif verkfalla á heilbrigðisþjónustu.

[10:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á miðnætti hófu 5.500 opinberir starfsmenn verkfallsaðgerðir. Það hefur gríðarleg áhrif, eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur hér áðan, þegar kemur t.d. að lögreglunni vegna þess að þar eru menn ekki með verkfallsrétt og sitja ekki við sama borð. Lögreglumenn eru því ekki í verkfalli en engu að síður eru þeir hér fyrir utan og taka undir með þeim sem hófu aðgerðir í dag.

Í þriðja skipti á rétt tæplega ári eru hafnar alvarlegar aðgerðir í heilbrigðiskerfi okkar. Við sjáum hundruð einstaklinga sem lagt hafa niður störf innan heilbrigðiskerfisins, innan Landspítalans — í þriðja skipti á einu ári. Það hefur gríðarleg áhrif á spítalann, það hefur gríðarleg áhrif á heilbrigðisstofnanir og það hefur gríðarleg áhrif á þjónustu við sjúklinga í landinu.

Á sama tíma er þessi ríkisstjórn að skera niður framlög til spítalans að raungildi í því fjárlagafrumvarpi sem fyrir liggur. Á sama tíma er þessi ríkisstjórn að lækka skatta á þá sem hæstar hafa tekjurnar og skilar til baka tekjum af veiðigjöldum. Þetta eru ekki skilaboð til þeirra sem starfa innan opinbera geirans og eru lægst launuðu hóparnir en það eru þeir sem mótmæla kjörum sínum í dag. Þessi ríkisstjórn hefur ekki hlustað á þessa hópa og þess vegna erum við í þessari stöðu.

Ekki hefur náðst að vinna niður biðlistana vegna fyrri verkfalla innan heilbrigðiskerfisins og nú er komin önnur hrina. Hvað hefur heilbrigðisráðherra gert til varnar heilbrigðisstarfsfólki og kjörum þess? Hvað hefur heilbrigðisráðherra gert til að grípa til varnar fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi sem líður vegna þessa ástands og vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki hlustað á réttmætar kröfur þessara hópa um bætt kjör?