145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

áhrif verkfalla á heilbrigðisþjónustu.

[10:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar hér er fullyrt að framlög til rekstrar Landspítalans séu skert að raungildi í fjárlögum fyrir árið 2016 þá er það ekki rétt. Ef tækjakaupaliðurinn er hins vegar lagður við rekstrarframlögin þá kann ég að nálgast þá sýn sem hv. þingmaður setur hér fram, en framlög til rekstrar Landspítalans aukast að raungildi um 300 millj. kr. á milli ára.

Ef við lítum til framlaga til Landspítalans á síðustu tvennum fjárlögum, fjárhagsárum, þá held ég að við getum alveg verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að í ljósi þess svigrúms sem heilbrigðismálum hefur verið skapað í fjárlagagerðinni þá getur Landspítalinn vel unað við sinn hlut þar í samanburði við aðra heilbrigðisþjónustu í landinu.

Ég hef áður ítrekað það hér í umræðum að það eru fleiri heilbrigðisstofnanir í landinu en Landspítalinn einn og sér. Ég tek undir og deili með hv. þingmönnum áhyggjum af stöðu heilbrigðismála í landinu, að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem heilbrigðiskerfið á að veita, í ljósi þeirra verkfalla sem dunið hafa yfir á sl. ári. Það er rétt að núna er þriðja hrinan að ganga yfir. Þetta er ömurleg staða. Það hef ég margítrekað úr þessum ræðustóli undangengið ár. Ég hef hvatt þingmenn jafnt sem ríkisstjórn og verkalýðsfélög til að reyna að ná saman og búa til einhverja eðlilega sátt. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi meðal annars farið að ágætri tillögu stjórnarandstöðunnar til að höggva á ákveðna hnúta í kjaradeilum sem ríkisvaldið hefur átt við einstaka starfshópa. Því miður skilaði það ekki árangri. (Gripið fram í.) Það er réttur stéttarfélaganna að knýja á um kjarabætur og hann skal virtur. — En af því að hér var skotið (Forseti hringir.) inn í og sérgreinalæknar sérstaklega nefndir skal ég taka glaður (Forseti hringir.) sérstaka umræðu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það mál.