145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

áhrif verkfalla á heilbrigðisþjónustu.

[10:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf enga sérstaka umræðu um það. Menn geta bara flett upp í fjárlagafrumvarpinu og séð að framlög til sérgreinalækna hækka um 32,6% á meðan við erum að sjá raungildislækkun til Landspítalans um 90 millj. kr. Hægt er að fara í einhverjar æfingar hér og segja: Jú, það er hægt að ná þeirri niðurstöðu ef við tökum tækjakaupin frá. Er ríkisstjórnin þá búin að ákveða að búið sé að kaupa nóg af tækjum á Landspítalann? Þar höfum við það frá yfirmanni heilbrigðismála í landinu. Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur.

Hæstv. ráðherra er yfirmaður heilbrigðismála hér á landi og á hans vakt hafa þrjú alvarleg verkföll skollið á með þeim afleiðingum sem við höfum horft upp á í heilbrigðiskerfinu. Að auki er öll stefnumörkun ítrekað sett í uppnám innan ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarsýn um byggingu nýs spítala. Þess vegna eru 1.600 manns sem starfa við Landspítalann og fleiri sem eru í heilbrigðiskerfinu annars staðar í verkfalli í dag. Það er vegna þess að ekki hefur verið hlustað á það fólk, sem er á skammarlega lágum launum sem ríkið skammtar því á sama tíma og það tekur þá tekjuhæstu í kerfinu og hækkar þá um 33%.