145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

áhrif verkfalla á heilbrigðisþjónustu.

[10:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá ósk mína til hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og Össurar Skarphéðinssonar að taka sérstaka umræðu um sérgreinalækna, því að hér (Gripið fram í.) er hlutunum snúið algjörlega á hvolf. Hlutdeild (Gripið fram í.) sem vinstri stjórnin síðasta hækkaði úr 29% upp í 40% var lækkuð úr 40% niður í 30%, þess vegna færist þessi kostnaður inn.

Hér er líka fullyrt að stefnumörkun mín í byggingaráformum nýja spítalans sé í uppnámi. Það er rangt. (Gripið fram í: Hvað segir forsætisráðherra?) Það er rangt. Stefnan liggur fyrir í samþykktum Alþingis, hv. þingmaður. Það er mjög einfalt fyrir fólk að kynna sér það. Eftir því er unnið. (Gripið fram í.) Það eru að koma tilboð í byggingu sjúkrahótelsins núna eftir nokkra daga. Ég vænti þess að ef þau verða innan skynsamlegra marka þá hefjum við framkvæmdir við það í nóvember o.s.frv. Það er langur vegur frá því, svo að það sé leiðrétt líka, og það er röng staðhæfing að verið sé að lýsa því yfir að búið sé að kaupa nóg (Forseti hringir.) af tækjum á Landspítalann. Ég undrast slíka staðhæfingu, að þannig sé lagt út af orðum manna.