145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

húsnæðisfrumvörp.

[10:48]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti og virðulegu gestir. Mig langar að koma hér upp og spyrja hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra um svokölluð húsnæðisfrumvörp. Síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur miklu verið lofað í þeim efnum, sem er vel. Margir hafa farið af stað og gert ýmis plön, talsvert margir bíða eftir þessum frumvörpum. Þeim hefur verið lofað hér trekk í trekk. Sveitarfélögin hafa lagt af stað í vinnu við að búa til stefnur og gert stór plön um að mæta hinum brýna húsnæðisvanda sem hefur mikil áhrif á kjör almennings og þeirra sem verið hafa í kjarabaráttu síðustu árin.

Mig langar einlæglega til að heyra frá hæstv. ráðherra: Hvað veldur því að þessi frumvörp eru ekki komin fram? Það hefur gríðarleg áhrif. Þessi frumvörp voru m.a. notuð til þess að liðka fyrir kjarasamningum í vor. Ég spyr: Á að nota þessi frumvörp aftur sem eitthvert tæki í þeim kjaradeilum sem við sjáum úti á Austurvelli og víðar? Á að nota þetta tromp eilíflega og svo kemur aldrei neitt fram? Samskipti við sveitarfélög, við almenning og við okkur hér eru einhvern veginn orðin voðalega skrýtin í kringum þessi frumvörp, en þau skipta gríðarlega miklu máli.

Ég óska eftir því að fá skýr svör um hvenær þessi frumvörp koma fram. Telur hæstv. ráðherra að þau geta orðið raunverulega kjarabót fyrir þá sem standa í kjaradeilum?