145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

húsnæðisfrumvörp.

[10:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að yfirlýsing ríkisstjórnar frá því 28. maí sl. var skuldbinding okkar gagnvart öllum heildarsamtökum á vinnumarkaðnum. Við vorum að skuldbinda okkur gagnvart ASÍ, BSRB, BHM og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að fara í ákveðnar aðgerðir. Þannig að það loforð liggur fyrir. Það þarf ekkert að veifa því neitt frekar og við munum standa við þau loforð sem við gáfum.

Það er hins vegar mjög flókið að gera nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi eins og kemur fram í þessari yfirlýsingu. Þeir sem koma að því geta haft mjög skýra sýn á það hvernig þeir sjá hlutina raungerast en sú sýn fellur ekki alltaf saman við sýn annarra eins og við þekkjum þegar menn eiga í viðræðum.

Við erum að reyna að ná saman um þetta. Það er mjög skýr vilji minn að við náum saman því að þetta er einfaldlega svo stórt mál, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að orðalag setninga (Forseti hringir.) þarf að liggja fyrir til þess að allir séu sáttir við fyrirkomulagið. Þar af leiðandi mun það líka leiða til þess að auðveldara verði fyrir þingið að vinna málið þegar fyrir liggur að svona stórir aðilar eru sammála um efnisatriðin.