145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

lögreglumenn.

[10:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Á undanförnu ári hafa læknar og hjúkrunarfræðingar farið í verkfall. Nú síðast hafa 5.500 starfsmenn lagt niður störf en þá eru lögreglumenn ekki taldir með. Það er grafalvarlegt mál, sem við stöndum frammi fyrir, að í annað sinn á innan við ári erum við með fjöldaverkföll mjög mikilvægra starfsmanna. Þessi 5.500 manna tala, sem var nefnd hér áðan, telur ekki einu sinni þá lögreglumenn sem hafa í reynd lagt niður störf. Lögreglumenn hafa nefnilega ekki verkfallsrétt og þó að starf lögreglumanna þurfi að vera tryggt með samningum þá hefur það bara ekki verið raunin. Það hefur ekki verið komið til móts við lögreglumenn og þeirra hóflegu kröfur, að mínu mati, þegar þeir hafa beðið um bætt kjör.

Nú stöndum við frammi fyrir því að lögreglumenn hafa lagt niður störf. Þeir eru að brjóta lög sem er frekar írónískt í sjálfu sér. Við höfum brugðist í því að koma til móts við þessa stétt. Þessi stétt hefur algjört grundvallarhlutverk í íslensku samfélagi, að stuðla að öryggi og að þau lög sem við viljum að land okkar byggi á verði við lýði. Lögreglumenn eru langþreyttir á þessu álagi. Það virðist ekkert duga til þess, að því er mér finnst, að hóflegar kröfur þeirra verði teknar alvarlega. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvernig hún ætlar að beita sér í því að komið verði til móts við kröfur lögreglumanna.