145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

lögreglumenn.

[10:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Átök á vinnumarkaði á Íslandi eru ekki ný af nálinni og hafa fylgt okkur Íslendingum um áratugi. Það virðist líka vera svolítið þannig að deilurnar eiga til að fara ofan í mikla skurði áður en við komumst upp úr þeim aftur, það er ekkert nýtt. Við höfum undanfarið staðið frammi fyrir gríðarlega miklum kjaradeilum. Ég vil þó meina að ríkisvaldið hafi teygt sig eins langt og það hefur getað gert í þeim samningum sem náðst hafa. Nú blasir við að ljúka þarf samningagerð við þá sem eftir standa. Lögreglumenn eru hluti af þeim samningaviðræðum. Það þarf að líta á það allt heildstætt. Ég held að ríkisvaldið sé að reyna að gera það. Ég trúi því að það muni viðsemjendur gera líka af því að okkar sameiginlega takmark hlýtur að vera það að við náum að búa svo um hnútana á vinnumarkaði að það sé til hagsældar fyrir vinnumarkaðinn sjálfan og þjóðfélagið í heild, þannig að við náum þeirri ró sem við þurfum til að halda áfram að byggja upp efnahagslífið í landinu.