145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:07]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að bregðast vel við beiðni minni um sérstaka umræðu um málefni fatlaðra. Nú er komin nokkur reynsla á flutning málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga og það má lengi tefja sig á að deila um hvort undirbúningur hafi verið nægjanlegur og hvernig að honum var staðið. En við fundum það vel á fundum á Vesturlandi síðastliðið haust eða fyrir um ári síðan að blikur voru á lofti og forsvarsmenn sveitarfélaga á Vesturlandi höfðu nokkrar áhyggjur af afkomu málaflokksins. Þegar þær áhyggjur voru ræddar vildu margir, meðal annars forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga, ekki gera mikið úr þeim þætti. En nú er svo komið að um 300 millj. kr. halli er á rekstri málaflokksins í Norðvesturkjördæmi samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fyrir hv. þingmenn þess kjördæmis í liðinni kjördæmaviku. Þar af er hallarekstur í umdæmi Vestfjarða, Byggðasamlags Vestfjarða, á málaflokknum um 100 milljónir sem allir sjá að svo fámennt svæði getur varla staðið undir.

Það má vafalaust telja margt til. Ég get í upphafi nefnt að breytingar á lögum um málefni fatlaðra hafa örugglega breytt myndinni nokkuð. Þá vísa ég til þess að sú grein laganna sem fjallar um réttindi til þjónustu er talsvert ítarlegri í nýrri útgáfu laganna en var í fyrri lögum og því ljóst í mínum huga að talsvert meiri skyldur voru lagðar á sveitarfélög með nýrri löggjöf en áður giltu. Það er því ein af spurningunum sem rétt er að velta upp í þessari umræðu og um undirbúning á flutningnum, hvort skýringa sé meðal annars að leita í þeim þætti. En ekki ber að skilja orð mín á þann veg að ég gagnrýni ítarlegri ákvæði og meiri réttindi til handa þeim sem reisa réttindi sín á þeim ákvæðum. Við viljum öll gera rétt í því og grundvallaratriði í þeirri umræðu sem ég er að opna hér snýst um að styrkja þau ákvæði og standa með því fólki sem hér um ræðir.

Við þingmenn sem störfum í landsbyggðarkjördæmum erum talsmenn margra ólíkra byggða og aðstæður eru mjög mismunandi. Samgöngur og vegalengdir eru stór áhrifavaldur í kostnaði við rekstur málaflokksins. Vegna ákvæða um lágmarksíbúafjölda á svæðum sem reka málaflokkinn má spyrja hvernig áhrif þeirra voru tækluð í samningagerð og undirbúningi og í þeim áherslum sem lagðar voru við úthlutun fjármuna til málaflokksins. Þessar sömu byggðir búa líka margar því miður við það böl að hafa lágan útsvarsstofn sem þýðir lægri framlög. En það er að sjálfsögðu enginn afsláttur gefinn á því að þjónustan við einstaklingana sé fyrsta flokks. Fámenn og veik byggðarlög lenda því í verulegum erfiðleikum við að einstaklingar til dæmis komast á fullorðinsaldur og framlög til þeirra lækka.

Í úttekt sem unnin var af ráðgjafarfyrirtæki fyrir Byggðasamlag Vestfjarða kemur fram að almennt virðast flest svæði í landinu glíma við um 10–13% halla í rekstri málaflokksins. Á Vestfjörðum einum er hallinn um 40%. Í úttektinni segir ráðgjafarfyrirtækið sem hana vann að ekki sé hægt að skýra allan þann 40% rekstrarhalla á málaflokknum með því einu að reksturinn sé óhagkvæmur. Þar er vissulega bent á nokkrar leiðir til hagræðingar en þær hagræðingaraðgerðir ná aldrei nægjanlega langt til þess að brúa bilið.

Þótt ég geri Vestfirði hér að umtalsefni eiga þau sjónarmið sem hér eru rakin mun víðar við. Ég hef ekki séð jafn ítarlega úttekt á þessari reynslu af málaflokknum frá öðrum svæðum þótt vafalaust séu þær til. En það er hins vegar mikill munur á þeim svæðum sem njóta stærðarhagkvæmni. Við skulum heldur ekki gleyma þeirri staðreynt að oft hefur fólk hreinlega tekið sig upp og flutt búferlum á annað landsvæði til að tryggja sér betri þjónustu. Sú breyting sem við ræðum hér færði hins vegar mörgum ný tækifæri til að búa áfram í heimabyggð þó að aðstæður hafi orðið með þeim hætti að þeir hafi þurft að nota þjónustu við einstaklinga á þessu sviði. Vafalaust má líka finna dæmi um það að þegar þjónustan er komin meira í nálægð við fólk, færist frá ríki til sveitarfélaga, sæki einstaklingar rétt sinn í meira mæli en áður þekktist. En slíkt segir okkur aðeins þá sögu að undirbúningur og mat á þjónustuþörf hefur líklega verið ófullnægjandi.

Virðulegi forseti. Við snúum ekki klukkunni til baka. Við ræðum vafalaust ekki um að hverfa til fyrra fyrirkomulags. Hins vegar er ljóst að mörg byggðasamlög og sveitarfélög ræða nú um að skila málaflokknum til baka. Kostnaður við þjónustu við fólkið hverfur ekki við það. Við ætlum ekki að stíga til baka og minnka þjónustuna. Ég vil vera skýr í því þegar ég segi að ég skil sjónarmið sveitarfélaga vel og ég vil að við bregðumst við því ákalli sem þau hafa beint til stjórnvalda.

Ég vil því biðja hæstv. félagsmálaráðherra að bregðast við hér í umræðunni og koma inn á eftirtalin atriði:

Hvernig metur ráðherra reynslu á flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga?

Hver eru viðbrögð ráðherra við kröfu sveitarfélaganna um hærri framlög?

Hver eru viðbrögð ráðherra við þeirri staðreynd að sveitarfélög á Vestfjörðum hafa þegar (Forseti hringir.) samþykkt að leita eftir því að skila málaflokknum til baka?