145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:20]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Málefni fatlaðs fólks eru gríðarlega umfangsmikill málaflokkur, fatlað fólk er mjög fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir. Það fer best á því að þjónustan fari fram í heimabyggð og einnig að matið á þeirri þjónustu fari þar fram. Það var því rökrétt að færa málefni fatlaðs fólks til sveitarfélaga, en slíkum flutningi verður að fylgja nægt fjármagn.

Nú hef ég setið í velferðarnefnd þar sem þessi mál hafa verið rædd og það hefur komið skýrt fram að sveitarfélögin hafa af þessu miklar áhyggjur. Málefni fatlaðs fólks geta verið mjög kostnaðarsamur málaflokkur og það sem erfiðara er er að kostnaðurinn getur verið mjög sveiflukenndur. Þessar sveiflur geta reynst litlum sveitarfélögum mjög erfiðar. Kostnaður við einn fatlaðan einstakling getur verið jafn mikill og kostnaðurinn við tíu aðra, þarfirnar eru svo misjafnar. Í litlu sveitarfélagi getur einn einstaklingur verið stór hluti af heildarkostnaði málaflokksins.

Margt hefur breyst í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Nú er víðast hvar verið að leggja niður sambýlin þar sem fólk býr saman, hver á sitt herbergi en íbúarnir nota saman þjónustueldhús o.s.frv. Nú er frekar horft til þess að fatlað fólk njóti friðhelgi og geti búið sjálfstætt. Þessari breytingu fylgir mikil aukning útgjalda og sveitarfélögin eru misjafnlega í stakk búin til að taka á móti málaflokknum. Þar sem fara þarf í að byggja upp húsnæði verður ríkið að tryggja fjármagn til þess. Sérstakt fjármagn verður að fylgja NPA-þjónustunni sem er frábær þjónusta.

Það má ekki gerast að fatlaðir einstaklingar og fjölskyldur þeirra upplifi sig sem bagga á sveitarfélögunum. Ef málaflokkurinn reynist einstökum sveitarfélögum ofviða er mikilvægt að sveitarfélagið geti hreinlega sagt sig frá þjónustuskyldu telji ríkið sig geta gert betur. En mikilvægast er að fötluðu fólki sé tryggð sú þjónusta sem það þarf.