145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:27]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu, sem er mjög mikilvæg. Í mínum huga snýst hún fyrst og fremst um velferð þeirra fötluðu og þeirra sem þurfa að njóta þeirrar þjónustu sem við erum hér að tala um.

Í mínum huga er alveg ljóst að það var rangt gefið í upphafi þegar sveitarfélögin tóku málaflokkinn yfir. Ég var þá bæjarstjóri í sveitarfélaginu Garði og ég man að fljótt lentum við í vandræðum með þennan málaflokk vegna kostnaðar. SIS-matið breytti stöðunni, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, og var liður í bættri og betri þjónustu fyrir hinn fatlaða. En það sem hefur breyst er að kröfurnar eru að aukast og ég velti því fyrir mér hvort þær séu alltaf endilega af hinu góða, allar kröfurnar. Það er kannski ekki alveg alltaf. Við þurfum líka aðeins að átta okkur á því hvar við þurfum að fara varlega í því.

Mér sýnist að í Suðurkjördæmi, mínu kjördæmi, á Suðurnesjum og á Suðurlandi, gæti hallinn á þessum málaflokki verið um 400 milljónir eða rúmlega það á þessu ári þegar allt er talið. Það er óviðunandi og í mínum huga er mjög mikilvægt að sveitarfélögin og ríkið rísi undir þeirri ábyrgð sem þau hafa gagnvart því að málaflokkurinn standi tryggum og öruggum fótum. Ég geri ráð fyrir því að fyrir 2. umr. fjárlaga, sem fer fram 26. nóvember nk., verði ríki og sveitarfélög búin að ná saman. Það eru tillögurnar sem hér komu fram. Það eru tillögurnar sem komu fram hjá hæstv. ráðherra um útsvarið og það þarf að ganga í það og ná sátt um þær upphæðir sem þar er um að ræða. Sveitarfélögum blæðir vegna þessa málstaðar, vegna þessara vandamála. Það má ekki bitna á þeim fötluðu, það er allra mikilvægast.