145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:38]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún kom með og fyrir umræðuna hérna sem mér finnst hafa verið afar góð og gagnleg. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði að fagleg og stjórnsýsluleg markmið yfirfærslunnar hefðu gengið eftir. Ég vona að sú vinna sem hafin er á úttekt á málaflokknum og fjárhagslegum samskiptum veiti okkur skýra leiðsögn um hvernig við eigum að leysa úr því vandamáli sem blasir við okkur. Hæstv. ráðherra staðfesti það sem ég hélt fram í framsögu minni um að ákveðnar blikur væru á lofti, að breyttar reglur hefðu mögulega hækkað tilkostnaðinn og að fleiri notuðu þjónustuna en reiknað var með. Hún nefndi sérstaklega mál eins og þjónustu við börn með alvarlegar raskanir og allt eru þetta atriði sem ég held að sé algerlega tímabært að fara yfir og við reynum að koma skýrari mynd á hvernig við eigum að tækla. En stóra málið fer ekki frá okkur.

Hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis, Elsa Lára Arnardóttir og Hörður Ríkharðsson, komu síðan vel inn á það í ræðum sínum að það mætti líka skoða hvernig fjármagninu er skipt. Þetta snýst ekki bara um að bæta endalaust fjármagni í málaflokkinn heldur líka hvernig því er skipt og hvernig við stöndum að rekstrinum. Auðvitað ber að gæta hófsemi og ýtrasta sparnaðar í þeim efnum. En við erum á engan hátt að tala um að hverfa til baka eða minnka þjónustuna nema síður sé. Þess vegna er mikilvægt að sú vinna sem nú er í gangi veiti okkur skýra leiðsögn um hvernig við eigum að greiða úr vandanum.

Ég vil undir lokin ítreka það að sveitarfélögin sitja uppi með mikinn kostnað. Ég get ekki horft fram hjá því og við getum einfaldlega ekki skilið það eftir í lausu lofti hvernig við ætlum að takast á við þann kostnað. Ég tek aftur undir það sem hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis sögðu áðan að það skiptir líka máli hvernig við skiptum fénu og hvernig því er dreift til veikari svæða sem eru til dæmis, eins og ég nefndi í framsöguræðu minni, með lægri útsvarsstofn. En ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.