145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[11:43]
Horfa

Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem missa vinnuna um sextugt, einhverra hluta vegna, eiga erfitt með að fá aftur starf. Stundum missir fólk vinnuna vegna hagræðingar eða vegna skipulagsbreytinga en ástæðan í uppsagnarbréfinu er aldrei sú að fólki sé sagt upp vegna aldurs. Stundum sýnist manni þó hreinlega sem verið sé að ýta eldra fólki út af vinnumarkaðnum, ekki sé áhugi á að nýta sér reynslu þess og þekkingu, og það gildir bæði um einkafyrirtæki og ýmsar opinberar stofnanir. Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, sagði í viðtali að nánast væri útilokað fyrir fólk sem er fætt um 1960 að fá vinnu ef það hefði verið atvinnulaust í ár eða lengur og væri fólk orðið sextugt væri orðið mjög þungt fyrir á vinnumarkaði. Þetta er þeim mun undarlegra þar sem það fólk er góðir starfsmenn, þeir hafa mikla reynslu og þekkingu, eru samviskusamir og trúir sínu fyrirtæki eða stofnun og eru ekki frá vegna veikinda barna. Komið hefur fram í rannsóknum að það er hreint ekki þannig að eldra fólk hræðist nýja tækni eða breytingar eins og margir vilja halda fram. Þvert á móti hefur það áhuga á að tileinka sér nýjungar og læra meira og það á líka auðveldara en þeir sem yngri eru með að taka ákvarðanir. Þetta hefur sést í rannsóknum.

Atvinnuleysi í landinu hefur sem betur fer minnkað og var skráð atvinnuleysi í síðasta mánuði einungis 2,4% og hefur ekki verið jafn lítið síðan fyrir hrun. Það er ástæða til að fagna því. Konur á atvinnuleysisskrá voru ívið fleiri en karlarnir og samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar voru fimmtugir og eldri 26% hópsins og langtímaatvinnuleysi var mest í þeim hópi, en langtímaatvinnulausir eru þeir sem hafa verið á atvinnuleysisskrá í ár eða lengur.

Virðulegi forseti. Ég stórefa að þær tölur sýni raunverulega stöðu þessa eldri hóps á vinnumarkaðnum. Fyrir því eru nokkrir ástæður. Ég hef rætt við fjölda kvenna og karla um sextugt og jafnvel yngri sem fá ekki vinnu þótt þau séu í fullu fjöri. Þess eru dæmi að fólk hafi sótt um, ég hef séð lista yfir umsóknir þar sem viðkomandi hafði sótt um 80 störf, hvaða störf sem er en ekki einu sinni verið boðaður í viðtal þótt hann hafi haft góða menntun og langa starfsreynslu.

Það er líka þekkt til dæmis á Norðurlöndunum að langvarandi atvinnuleysi fylgja alls konar vandamál, heilsan bilar og félagsleg staða fólks versnar. Þegar fólk hefur misst heilsuna fer það á örorkubætur og það vekur athygli að öryrkjum 55–66 ára fjölgaði hér á landi um 20% á árunum 2009–2013 en Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki haft bolmagn til að greina ástæðurnar fyrir því. Ekki er ólíklegt að ein af ástæðunum fyrir þeirri fjölgun sé langvarandi atvinnuleysi og svo eru líka margir á þessum aldri sem veigra sér við að láta skrá sig atvinnulausa.

Þegar fólk í kringum sextugt er síðan dottið út af atvinnuleysisskrá er úr vöndu að ráða. Þeir sem eru í sambúð láta sér ef til vill duga einar tekjur til að lifa af og konur sem eru sendar heim af vinnumarkaði fara að sinna fjölskyldunni og jafnvel passa barnabörnin ef þær fá ekki aftur starf. Þeir sem ekki hafa þessa framfærslumöguleika þurfa að leita á náðir sveitarfélaganna en fram hefur komið að fjárhagsaðstoð þar hefur aukist mikið.

Nú þegar rætt er um að hækka eftirlaunaaldurinn upp í 70 ár er nauðsynlegt að hugsa um þennan hóp. Á þessi hópur að fara á atvinnuleysisbætur eða segja sig til sveitar á meðan hann bíður eftir því að komast á eftirlaun eftir kannski tíu ár? Hefur samfélagið efni á því að fullfrískt fólk sitji heima með hendur í skauti? Hafa stjórnvöld hugað að þeim möguleika sem er til dæmis fyrir hendi á Norðurlöndunum en þar tíðkast svokölluð „førtidspensionering“ sem gerir fólki kleift að fara á eftirlaun fyrr en ella ef það stendur uppi atvinnulaust um sextugt?