145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[11:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ernu Indriðadóttur kærlega fyrir þessa umræðu. Hvað varðar þær spurningar sem er beint til mín — kannski ég fái aðeins að byrja á jákvæðu punktunum sem snúa að atvinnuþátttöku eldra fólks hér á Íslandi. Atvinnuþátttaka hér á landi er lægst meðal fólks á aldrinum 55–74 ára, um 65%. Við sáum að á árinu 2014 mældist atvinnuþátttaka meðal fólks á þessu aldursbili 67,2%. Þrátt fyrir þetta þá er atvinnuþátttaka eldra fólks, þ.e. 60 ára og eldri, er sú mesta sem gerist á Vesturlöndum. Það hefur sýnt sig í okkar samfélagi að við þurfum einfaldlega á því að halda að fólk sem er komið yfir sextugt sé virkt hér á vinnumarkaðnum þannig að aðstæður á Íslandi eru að einhverju leyti frábrugðnar því sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur almennt saman við. Þetta held ég að sé líka ein af ástæðunum fyrir því að við mælumst tiltölulega há þegar kemur að efnahagslegri stöðu eldra fólks í samanburði við önnur lönd.

Við höfum ýtt undir þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði. Eitt skýrasta dæmið á undanförnum missirum er virk þátttaka hv. þingmanns og ráðherra Sigrúnar Magnúsdóttur, sem ég tel til mikillar fyrirmyndar þó að hún sé úr mínum flokki. Ég heyri það frá henni að fólki í kringum hana finnst það vera ákveðin fyrirmynd og skilaboð til annarra í samfélaginu um mikilvægi þess að nýta þá miklu þekkingu sem er til staðar hjá eldra fólki og oft mun meiri starfsorka en hjá okkur sem erum nokkrum tugum árum yngri en viðkomandi.

Tölur sýna að skráð atvinnuleysi meðal miðaldra og eldra fólks er ekki meira en hjá öðrum aldurshópum hér á landi. En eins og hv. þingmaður benti á þá virðist vera, þegar fólk á annað borð missir vinnuna, erfiðara að komast aftur inn á vinnumarkaðinn.

Eitt af því sem við sjáum líka er aukin krafa á vinnumarkaðnum varðandi það að fólk viðhaldi stöðugt starfsfærni sinni, en gögn starfsmenntasjóða sýna hins vegar fram á að upp úr fimmtugu dregur úr þátttöku fólks í sí- og endurmenntun. Það hefur líka komið fram í samanburði við aðrar þjóðir í hinu svokallaða „old ages index“ að það sem dregur okkur í rauninni niður í samanburði við aðrar þjóðir er menntun eða aðgengi eldra fólks að menntun og menntunartækifærum. Þetta virðist vera eitthvað sem við gætum hugað sérstaklega að.

Ég líka tek undir að það er mikilvægt að fara yfir þessar tölur og greina hugsanlegar hindranir í tengslum við þátttöku eldra fólks á vinnumarkaðnum. Eitt er einfaldlega viðhorfið, eins og var nefnt hér, en við sjáum hins vegar líka í tölunum að viðhorfið hér virðist almennt mun jákvæðara gagnvart atvinnuþátttöku eldra fólks en í flestum öðrum samanburðarlöndum.

Það sem þingmaðurinn kom inn á varðandi hækkun lífeyrisaldurs í 70 ár, þá er búið að vera að ræða hækkun lífeyristökualdursins í tveimur nefndum sem annars vegar hafa fjallað um endurskoðun almannatryggingakerfisins og hins vegar um endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins. Það byggist einfaldlega á því að meðalævilengdin er sífellt að lengjast. Fólk er hraustara, það lifir lengur. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að við eigum að sjálfsögðu að reyna að njóta krafta þessara einstaklinga sem allra lengst á vinnumarkaðnum. Við þurfum einfaldlega á því að halda.

Hugsunin hefur verið sú að reyna með einhverjum hætti, en við teljum það skynsamlegt, að taka lífeyris hefjist við sama aldur í báðum lögbundnum lífeyriskerfum. Það hefur verið rætt um að hækka lífeyristökualdurinn í áföngum úr 67 ára aldri til 70 ára aldurs. Svo erum við jafnframt með önnur viðmið gagnvart opinberum starfsmönnum sem er líka mikilvægt að huga að hvernig við getum samræmt sem best.

Víða á Norðurlöndunum hefur verið tekið upp kerfi þar sem tekið er jafnt og þétt tillit til þróunar svokallaðra ólifaðrar meðalævi. Ævilíkur þeirrar sem stendur hér er þá önnur en þeirra sem eru tíu árum eldri og yrði þá tekið tillit til hvenær fólk hæfi lífeyristöku.

Það sem við sjáum er aukin áhersla á að hvetja fólk til að vinna lengur og að lífeyrisaldur sé sveigjanlegur. Menn hafa hins vegar verið að fara til baka frá hugmyndum sem kallaðar voru „førtidspension“ og frekar lagt áherslu á aukinn sveigjanleika varðandi starfsgetu samhliða hækkun lífeyristökualdursins.

Það sem ég vil líka leggja áherslu á og er með á minni þingmálaskrá snýr einmitt að þessum viðhorfum og að tryggja að ekki sé verið að mismuna fólki, m.a. á grundvelli aldurs. Það hefur sýnt sig að í nánast öllum öðrum Evrópuríkjum en okkar hefur verið innleitt bann við mismunun, þar á meðal á grundvelli aldurs. Algengasti þátturinn þar sem er verið að mismuna fólki í Evrópu er vegna aldurs. Aðrir þættir sem er kannski rætt meira um, eins og fötlun eða kynhneigð, eru óalgengari. Algengustu málin sem koma upp er mismunun vegna aldurs. Við verðum náttúrlega öll á endanum gömul. (Gripið fram í: Ef guð lofar.) — Ef guð lofar, ef við lifum lengi þá verðum við gömul. Þar af leiðandi getum við staðið frammi fyrir því að verða fyrir mismunun á grundvelli (Forseti hringir.) aldurs.

Ég hef lagt áherslu á að auðvelda fólki að vinna lengur með auknum sveigjanleika, að við getum notað úrræðin til þess að styrkja heilsu fólks, auk þess að leggja (Forseti hringir.) meiri áherslu á sí- og endurmenntun svo við hættum ekki að afla okkar aukinnar þekkingar og að samfélagið horfi áfram til (Forseti hringir.) þess hversu mikilvægir aldraðir eru.