145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[11:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vona að ég fái líka að setjast að hér í ræðustól. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ernu Indriðadóttur fyrir þessa mjög svo mikilvægu umræðu. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við tökum þá umræðu í þinginu núna því að líkt og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru nefndir í gangi sem eru að ræða um hækkun á lífeyrisaldri. En eins og hv. þm. Erna Indriðadóttir benti á eru rosalega margir fletir á því og þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum ítarlega og góða umræðu um það í þingsal.

Breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar kallar að mínu mati á viðhorfsbreytingu á vinnumarkaði. Hlutfall eldra fólks er að aukast í samfélaginu og það eru alltaf fleiri og fleiri aldraðir sem búa við góða heilsu og getuna og viljann til þess að vera lengur á vinnumarkaði. Svo er það hin hliðin að það er hópur fólks á vinnumarkaði þar sem nýgengi örorku er mjög hátt og er þá oft sérstaklega vísað til kvenna sem eru komnar yfir 55 ára og þurfa hreinlega að hætta að starfa vegna slits og álags í vinnu.

Þetta eru atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að við tökum öll í samræmi. Við getum ekki bara breytt lagabókstafnum um lífeyristökualdurinn heldur verðum við að skoða samfélagið í heild og hvaða áhrif þetta hefur og hvort það sé hreinlega gerlegt. Þótt eitthvert tryggingafræðilegt mat segi okkur að við verðum að hækka aldurinn til þess að fá bótakerfið til að ganga upp verðum við líka alltaf að hugsa um samfélagið og hvaða áhrif (Forseti hringir.) þetta hefur inn í samfélagslegu dínamíkina.