145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[11:59]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég sá þessa umræðu, sem hv. þm. Erna Indriðadóttir hóf, þá datt mér í hug járnkanslarinn Otto von Bismarck sem ákvað árið 1889 að almannatryggingar skyldu miðast við 70 ár. Allar götur frá 1889, í 126 ár, hefur öldrun miðast við töluna sem Bismarck ákvað án þess að hafa nokkra læknisfræðilegar forsendur fyrir því. Í dag er ástandið þannig að þeir sem verða sjötugir geta vænst þess að lifa í 14,5–16,7 ár eftir kyni. Þeir sem verða sextugir geta vænst þess að lifa í 22–25 ár eftir kyni. Það að afskrifa þennan hóp af vinnumarkaði er býsna illa farið með ágætisauðlind sem er vinnuafl fólks.

Vinnan er í langflestum tilfellum sú birtingarmynd sjálfsmyndar sem fólk þarf að búa við og það að afskrifa fólk á þessum aldri, á mínum aldri, er býsna harkaleg ráðstöfun. Ég tel að þeir sem hafa aflað sér þekkingar, reynslu og ýmissar aðlögunar á býsna löngum starfsaldri og verða sextugir séu ágætisstarfskraftur.

Ég verð líka að láta þess getið hér í ræðustól að mér finnst illa farið með kollega mína, þingmenn, því að þeir eru taldir til alls ónýtir eftir að þingsetu lýkur.

Ég tel að þessi umræða sé býsna mikilvæg en hún er allt of stutt. Það eru ýmsar starfsstéttir sem geta lagt mikið af mörkum. Mér detta nú í hug kollegar mínir, háskólakennarar, sem eru skyldaðir til að láta af kennslu sjötugir. Þeir hafa gífurlega þekkingu sem er allt of dýrt að leggja frá sér.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu, en óska þess að þetta mál verði hugsað hér á þingi oftar.